Erlent

Gagn­rýnir May og segir sendi­herrann vera heimskan

Sylvía Hall skrifar
Trump hefur snúið sér að lyklaborðinu enn á ný.
Trump hefur snúið sér að lyklaborðinu enn á ný. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti fer ófögrum orðum um Kim Darroch, sendiherra Bretlands, og forsætisráðherrann Theresu May í kjölfar minnisblaðaleka sem birtist í breska dagblaðinu Mail on Sunday. Þar gagnrýndi sendiherrann stjórn Trump og sagði hana vanhæfa, klunnalega og óstarfhæfa.

Sjá einnig: Trump og sendiherra Bretlands í hár saman

May hefur lýst yfir stuðningi við sendiherrann en segir skoðanir hans ekki endurspegla skoðanir ríkisstjórnarinnar. Ummæli May eru í takt við ummæli utanríkisráðherrans Jeremy Hunt sem sagði ríkisstjórnina bera fullt traust til Bandaríkjaforseta og stjórnar hans.

„Okkur finnst enn að undir stjórn Trump Bandaríkjaforseta sé stjórn Bandaríkjanna ekki aðeins mjög skilvirk heldur einnig besti mögulegi vinur Bretlands á hinu alþjóðlega sviði,“ sagði Hunt.

Brexit viðræðurnar „stórslys“ 

Trump er ekki sáttur við May og gagnrýnir störf hennar í Brexit viðræðunum við Evrópusambandið. Hann segir viðræðurnar misheppnaðar og í raun stórslys. Þá séu Bandaríkin ekki heldur himinlifandi með störf Darroch.

„Klikkaði sendiherrann sem Bretland prangaði upp á okkur er ekki maður sem við erum ánægð með, mjög heimskur náungi. Hann ætti að tala við landið sitt, og forsætisráðherrann May, um misheppnaðar Brexit viðræður frekar en að vera svekktur út í gagnrýni mína varðandi hversu illa þær voru tæklaðar,“ skrifaði forsetinn á Twitter-síðu sína.

Hann segist hafa sagt May hvernig hún ætti að semja við Evrópusambandið en hún hafi farið sína „heimskulegu“ leið og því hafi það ekki tekist. Hann bætir við að hann þekki ekki sendiherrann en hann hafi heyrt að hann sé „oflátungslegt fífl“.




Tengdar fréttir

Trump og sendiherra Bretlands í hár saman

Kim Darroch, sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum, er harðorður í garð Bandaríkjaforseta og segir hann og stjórn hans vera vanhæfa, klunnalega og óstarfhæfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×