Viðskipti innlent

Tillögur minnihlutans um Seðlabankann samþykktar á Alþingi

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Frá húsakynnum Seðlabanka Íslands við Arnarhól
Frá húsakynnum Seðlabanka Íslands við Arnarhól FBL/ANTON BRINK
Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis studdi í gær breytingartillögur minni hluta nefndarinnar við frumvarp forsætisráðherra um sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Sameiningin hefur verið gagnrýnd mjög bæði af þingmönnum minnihlutans og eftirlitsstofnunum.

Í ræðu á Alþingi í gær varaði Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sérstaklega við hættu á flokkspólitískum áhrifum á starfsemi Seðlabankans. Breytingarnar gerðu Seðlabankann að mjög valdamikilli stofnun og því ekki ólíklegt að stjórnmálamenn vilji hafa áhrif á starfsemi hans.

„Þess vegna hef ég varað við því að verið sé að bjóða upp á að flokkspólitískir hagsmunir ráði för frekar en faglegt mat við ráðningu embættismanna,“ sagði Oddný og vísaði til að forsætisráðherra eigi að ráða tvo yfirmenn sameinaðrar stofnunar og fjármálaráðherra tvo.

Tillögur minni hlutans sem meiri hlutinn féllst á, fela meðal annars í sér auknar hæfniskröfur til fulltrúa í bankaráði Seðlabankans, fastari ramma um verkefni bankaráðs, að starfsemi bankans verði háð reglubundnu ytra mati og að formennska fjármálaeftirlitsnefndar verði í höndum varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits í stað seðlabankastjóra.

Ekki var búið að greiða atkvæði um frumvarpið er Fréttablaðið fór í prentun í gærkvöldi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×