„Ég geri ráð fyrir að þetta klárist að megninu í kvöld,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, skömmu áður en Fréttablaðið fór í prentun í gær. Gert var ráð fyrir að aðeins fjármálaáætlun og fjármálastefna yrðu óafgreidd og verða þau mál rædd saman á þingfundi í dag.
Meðal þeirra mála sem samþykkt voru sem lög frá Alþingi í gær voru lög um gjaldtöku vegna fiskeldis í sjó og lög um stjórn veiða á makríl sem sett voru til að bregðast við dómi Hæstaréttar.
Samþykktar voru ályktanir Alþingis um endurskoðun lögræðislaga, ályktun um skipun starfshóps um stöðu sveitarfélaga á Suðurnesjum og ályktun um gerð aðgerðaráætlunar um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna. Þá fengu 32 einstaklingar ríkisborgararétt með lögum frá Alþingi.
Þegar blaðið fór í prentun voru, auk framangreindra mála, fyrirhugaðar atkvæðagreiðslur um tvö umdeild mál; um heimild til innflutnings á ófrosnu kjöti og lög um sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.
Fjármálin ein eftir á dagskrá
Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
