Viðskipti innlent

Tekist á um réttmæti ákvörðunar VR

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þorsteinn og Ragnar Þór tókust á í útvarpsþættinum Sprengisandi í vikunni.
Þorsteinn og Ragnar Þór tókust á í útvarpsþættinum Sprengisandi í vikunni.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að fulltrúaráð félagsins í Lífeyrissjóði verzlunarmanna hafi verið í fullum rétti í að afturkalla umboð stjórnarmanna félagsins í lífeyrissjóðnum. Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, segir að VR sé með ákvörðuninni að stunda pólitík og það sé óeðlilegt að verið sé að beina fyrirmælum til stjórnarmanna um hvernig reka eigi lífeyrissjóðinn.

Þorsteinn og Ragnar voru gestir á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun þar sem þeir ræddu ákvörðun fulltrúaráðs VR að afturkalla umboð stjórmannanna. Ákvörðunin þykir umdeild en Fjármálaeftirlitið hefur meðal annars til rannsóknar hvort farið hafi verið að lögum þegar VR ákvað að skipta um stjórnarmenn. Meðal þess sem rannsakað verður er hvort stjórnarmenn VR sem komi inn í staðinn geti talist réttkjörnir.

Ragnar Þór var spurður út í þetta í útvarpsþættinum.

„Við erum eingöngu í stjórn VR, og fulltrúaráði að fylgja þeirri stefnu sem að Alþýðusambandið hefur sjálft sett. Ég heyrði nú ekki Fjármálaeftirlitið gera miklar athugasemdir, eða Samtök atvinnulífsins, þegar við voru að álykta um það á síðasta alþýðusambandsþingi. En við teljum okkur vera í fullum rétti. Okkar stjórnarmenn eru ekki kjörnir á ársfundi eða aðalfundi Lífeyrissjóðsins,“ sagði Ragnar Þór.

Málið snýst um vaxtahækkkun á breytilegum verðtryggðum húsnæðislánum til sjóðfélaga úr 2,06 prósentum í 2,26 sem taka á gildi 1. ágúst næstkomandi.

Ólafur Reimar Gunnarsson, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna sagði skilið við VR í vikunni vegna málsins.

Ákvörðunin fari þvert gegn Lífskjarasamningnum

Ragnar Þór segir ákvörðunina vera þvert á það sem Lífskjarasamningurinn standi fyrir.

„Við settum okkur skýr markmið, til að mynda að gefa eftir launakröfur til að ná hörðum höndum að lækka kostnað til að lifa og við töldum að stjórn lífeyrissjóðsins hafi farið, ekki bara gegn Lífskjarasamningnum heldur líka gegn ályktun Alþýðusambandsins þar sem við ályktuðum á síðasta Alþýðusambandsþingi um tvennt.

Það er að segja að verkalýðshreyfingin myndi beita sér í meira mæli fyrir hagsmunum almennings og okkar félagsmanna í gegnum lífeyrissjóðakerfið. A, í gegnum það að beina því til okkar stjórnarmanna að fjárfesta ekki í fyrirtækjum sem borga ofurlaun og bónusa, og svo B, að tryggja það að markaðsvextir, eða skuldabréfavextir, að ef þeir væru lækkandi myndi það skila sér í betri kjörum til okkar félagsmanna,“ sagði Ragnar Þór.

Þorsteinn er á meðal þeirra sem gagnrýnt hefur ákvörðun fulltrúaráðs VR og í þættinum sagði hann það blasa við að þeir sem komi inn í stjórn lífeyrissjóðsins á vegum VR væru ekki réttkjörnir. Það þurfi aðalfund til þess að taka formlega ákvörðun um það hverjir séu í stjórn, þó að fyrirfram sé búið að tilnefna stjórnarmenn.

„Það er að tvennu að huga í þessu. Það er kannski Fjármálaeftirlitsins að úrskurða um það á endanum hvernig stjórnarkjör fer fram og hvernig þá hægt sé að gera breytingar á stjórn. Ég hefði nú haldið miðað við að hafa skoðað lögin í fljótu bragði og samþykktir lífeyrissjóðsins að það liggi alveg augljóslega fyrir að þær ákvarðanir eru teknar á fundi sjóðsins, þó að það sé alveg rétt að það sé fyrirfram ákveðið í samþykktum hverjir tilnefni svo stjórnarmenn,“ sagði Þorsteinn.



Algjörlega óeðlilegt að beina fyrirmælum til stjórnarmanna

Sagði Þorsteinn að samkvæmt lögum væri markmið stjórnarmanna lífeyrissjóða einfalt, að hámarka ávöxtun lífeyrissparnaðar sjóðfélaga. Þá minnti hann á að eftir hrun hafi verið hávær umræða um að tryggja þyrfti sjálfstæði stjórnarmanna.

„Stjórn getur ekki verið með þá stefnu að ætla að keyra niður vaxtastig í landinu ein og óstutt eða hlýta einhverjum fyrirmælum frá þá þeim félögum sem vissulega standa að hverjum lífeyrissjóði fyrir sig, hvort sem það eru atvinnurekendamegin eða launþegamegin. Ég held að í þessu samhengi sé mjög gott að hafa í huga að hér var mikil umræða á árunum fyrst eftir hrun að koma í veg fyrir óeðlileg afskipti af stjórnun Lífeyrissjóðanna og þá er horft, í fjárfestingalegum tilgangi, óttann við það að menn hafi mögulega verið að misnota með einhverjum hætti stöðu eða vald til að beina fjárfestingum í eina átt fremur en aðra,“ sagði Þorsteinn.

Bætti hann við að með þessu væri VR að stunda verkalýðspólitík og að það væri ekkert skárra að verkalýðsfélag væri að reyna að hafa áhrif á störf stjórnar lífeyrissjóðs, frekar en einhver atvinnurekandi.

„Það að vera að beina fyrirmælum til stjórnarmanna með hótunum um brottrekstur ella fer þvert gegn sjálfstæði stjórnarinnar. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri sjóðsins og stjórnarmenn eru persónulega ábyrgir ef menn gerast brotlegir með einhverjum hætti, geta jafnvel sætt málsóknum ef að þeir starfa með hætti sem er ekki í samræmi við lög um lífeyrissjóði. Þar af leiðandi er það náttúrulega algjörlega óeðlilegt að það sé verið að beina fyrirmælum til þeirra sömu stjórnarmanna frá aðilum sem ekki myndu bera ábyrgð á þeim ákvörðunum sem þeir eru að kalla eftir að verði teknar.“

Hlusta má á umræðunar í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Segir hækkun lánavaxta til að verja hagsmuni sjóðsfélaga

Starfandi stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna segir að stjórnin hafi hækkað lánsvexti til að verja lífeyri hundrað og sjötíu þúsund sjóðsfélaga. Annars hefði verið hætta á að þeir greiddu með lánum sjóðsins. Núverandi stjórn starfar fram að næsta fundi þrátt fyrir að yfir helmingur hennar hafi misst umboð sitt.

FME rannsakar brottrekstur VR

Fjármálaeftirlitið hefur til skoðunar þá ákvörðun VR að draga til baka umboð stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verzlunarmanna.

FME sagði Ólaf enn formann LIVE

Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, segist telja að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafi beðið eftir að fá tækifæri til að reka fulltrúa VR í stjórn lífeyrissjóðsins því hann hafði e






Fleiri fréttir

Sjá meira


×