Erlent

Bandaríkjaforseti segir konuna sem sakar hann um nauðgun ekki hans „týpu“

Kjartan Kjartansson skrifar
E. Jean Carroll er 75 ára gömul í dag. Þau Trump voru bæði rétt rúmlega fimmtug þegar hún segir að hann hafi nauðgað sér.
E. Jean Carroll er 75 ára gömul í dag. Þau Trump voru bæði rétt rúmlega fimmtug þegar hún segir að hann hafi nauðgað sér. AP/Craig Ruttle

Donald Trump Bandaríkjaforseti sakar þekktan pistlahöfund um að ljúga því til að hann hafi nauðgað henni í stórverslun í New York á 10. áratugnum. Hann segir einnig að konan sé ekki hans „týpa“.



Í fyrstu fullyrti Trump að hann hefði ekki hugmynd um hver Carroll væri þrátt fyrir að grein hennar fylgdi mynd af þeim saman. Nú segir forsetinn að Carroll sé „algerlega að ljúga“, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.



„Ég skal segja þetta með mestu virðingu: númer eitt, þá er hún ekki mín týpa. Númer tvö, þetta gerðist aldrei. Þetta gerðist aldrei, allt í lagi?“ sagði Trump í viðtali.



Þegar ummæli forsetans voru borin undir Carroll sagðist hún fegin. „Ég elska að ég er ekki hans týpa,“ sagði hún við CNN.



Carroll er sextánda konan sem hefur sakað Bandaríkjaforseta opinberlega um kynferðislegt ofbeldi eða áreitni. Trump hefur neitað öllum ásökununum. Í kosningabaráttunni árið 2016 skaut þó gömul upptaka upp kollinum þar sem Trump gortaði sig af því að ráðast kynferðislega á konur með svipuðum hætti og margar kvennanna halda fram að hann hafi gert.



Þetta er heldur ekki í fyrsta skipti sem Trump ber af sér ásökun um kynferðislegt ofbeldi með því að segja ásakandann ekki hans „týpu“. Forsetinn sagði það sama um Jessicu Leeds, konu sem sakaði hann um að hafa þuklað á sér í flugvél á 9. áratugnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×