Enn á að bæta í hitann á meginlandi Evrópu í dag eftir júnímet sem slegin voru í nokkrum löndum í gær. Búist er við um og yfir fjörutíu stiga hita sums staðar í dag og hafa frönsk yfirvöld gefið út viðvörun um að líf fólks geti verið í hættu vegna hitans.
Hitabylgja hófst fyrr í þessari viku. Í gær voru sett met fyrir hæsta hita í júnímánuði í Þýskalandi, Póllandi og Tékklandi. Í bænum Coschen í Brandenburg í Þýskalandi náði hitinn 38,6°C í gær. Í Radzyn í Póllandi og Doksany í Tékklandi sýndi hitamælirinn 38,2°C annars vegar og 38,9°C hins vegar.
Hitinn á að rísa enn frekar í mörgum löndum næstu þrjá daga, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Þannig gæti hitinn náð 45 gráðum á norðausturhluta Spánar á morgun. Varað er við verulegri hættu á skógareldum þar.
Í Frakklandi er appelsínugult viðvörunarstig vegna hitans í nær öllu landinu. Í París hafa sérstök kælisvæði fyrir íbúa verið skilgreind og bráðabirgðagosbrunnar og vatnshanar verið settir upp.
Vísindamenn eru tregir til að tengja einstaka veðuratburði við þær loftslagsbreytingar sem nú eiga sér stað á jörðinni af völdum manna. Hitabylgjur eins og sú sem nú gengur yfir Evrópu verða þó tíðari með hækkandi meðalhita jarðar.
Potsdam-loftslagsrannsóknastofnunin í Þýskalandi segir að fimm heitustu sumur í Evrópu frá árinu 1500 hafi öll verið á þessari öld.
Hitametin falla á meginlandinu

Tengdar fréttir

Skólar í Frakklandi loka vegna hitabylgjunnar
Sérfræðingar telja að rekja megi tíðni hitabylgna eins og þeirrar sem nú herjar á Evrópu til gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum.

Íslendingar varaðir við áfengisþambi í hitabylgjunni
Landlæknir leiðbeinir Íslendingum hvernig þeir eiga að takast á við hitann sem er spáð á meginlandi Evrópu í vikunni.

Parísarbúar búa sig undir allt að fjörutíu stiga hita
Líkur eru á því að hitamet fyrir júní falli í Frakklandi, Þýskalandi, Sviss og Belgíu í hitabylgju í vikunni.