Viðskipti innlent

Korthöfum í Costco fækkar

Birgir Olgeirsson skrifar
Stuðningsfólk Miðflokksins er líklegast til að eiga Costco-kort.
Stuðningsfólk Miðflokksins er líklegast til að eiga Costco-kort. Fréttablaðið/Ernir
Korthöfum í Costco hefur fækkað um 18 prósent á einu ári, ef marka má könnun MMR. Þessi bandaríski heildsölurisi hóf innreið sína á íslenskan markað snemmsumars árið 2017 en í janúar í fyrra sýndi könnun MMR að 71 prósent landsmanna væri með aðildarkort í Costco.

MMR endurtók á dögunum mælinguna frá 2018 og í ljós kom að nokkuð færri Íslendingar eru með virkt Costco aðildarkort nú heldur en við síðustu mælingu. Er nú rúmlega helmingur (53%) Íslendinga með virkt aðildarkort í Costco samanborið við 71% landsmanna í upphafi árs 2018.

Á sama tíma og þeim hefur fækkað sem eru með virkt Costco aðildarkort hefur hlutfalli þeirra sem hyggjast endurnýja kortið aukist. Hyggjast nú 78% þeirra sem hafa virkt aðildarkort endurnýja kortið þegar þar að kemur samanborið við 60% í janúar 2018.

Fólk á aldrinum 30-49 ára (62%) og 50-67 ára (60%) reyndist líklegra en fólk í öðrum aldurshópum til að hafa virkt Costco aðildarkort. Þá reyndist fólk á aldrinum 50-67 ívið líklegra en aðrir til að ætla að endurnýja Costco aðild sína eða 85%.

Höfuðborgarbúar (58%) reyndust líklegri til að vera með Costco aðildarkort heldur en íbúar landsbyggðarinnar (42%) en hlutfall þeirra sem hugðust endurnýja aðildina var nokkuð jafnt eða tæp 80% bæði hjá höfuðborgarbúum og íbúum landsbyggðarinnar.

Nokkur munur var á Costco aðild eftir stjórnmálaviðhorfum. Stuðningsfólk Miðflokksins reyndist hvað líklegast til að vera með Costco aðildarkort eða 72%. Um helmingur stuðningsfólks Viðreisnar, Pírata og Samfylkingar voru með virkt aðildarkort en einungis 34% stuðningsfólks Vinstri grænna. Stuðningsfólk Miðflokksins reyndist jafnframt líklegast til að ætla að endurnýja Costco aðild sína eða 91%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×