Uppfært klukkan 14.33: Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði Borgarbyggðar reyndist eldur ekki hafa verið kveiktur í fjörunni við Skorradalsvatn. Gufa stígur upp úr vatninu sunnanverðu vegna þess að heitt vatn rennur í vatnið eftir að lögn fór í sundur.
Varað hefur verið við hugsanlegum gróðureldum á Vesturlandi vegna langvarandi þurrka. Óvissustigi almannavarna hefur verið lýst yfir í samráði við lögreglustjórann á Vesturlandi. Slökkvilið Borgarbyggðar æfði sérstaklega á föstudagskvöld viðbrögð vegna hugsanlegra gróðurelda.
Þórður Sigurðsson, varaslökkviliðsstjóri í Borgarbyggð, er á leið upp í Skorradal ásamt lögreglu til að skoða málið nánar.
„Það er enn allt mjög þurrt. Mjög ógnvænlegar myndir sem ég hef verið að fá sendar í morgun þar sem fólk hefur verið að kveikja elda þarna sem er mjög svekkjandi í ljósi allrar umræðunnar og alls sem á undan er gengið.“
„Ég hef fengið myndir af tjaldsvæði þarna þar sem var smá eldur og svo hefur greinilega verið kveiktur eldur niður í fjöru við vatnið. Þetta verður skoðað í samvinnu við lögreglu. Það má líta á þetta sem tilræði við almannaöryggi að haga sér svona. Við lítum þetta mjög alvarlegum augum og það verður farið með þetta lengra,“ segir Þórður.
![](https://www.visir.is/i/061E4D2A91BB4F1B2BA57F66467C4BEF38353C9CD5F6A91AF44E820F4EED0B68_713x0.jpg)
„Hann hleypur sjálfsagt á milljónum yfir mánuðinn. Fyrir svona lítið slökkvilið er þetta gríðarleg kostnaðaraukning. Við megum ekki gleyma því að það eru tugþúsundir í sumarbústöðum hérna.“
Sjá einnig: Gróðureldar verði ein sviðsmynd almannavarna
Þórður hvetur fólk til þess að kveikja alls ekki elda í Skorradal.
„Alls ekki. Hugsið út í hvað þið eruð að gera.“
Spáð hafði verið rigningu á Vesturlandi á morgun 17. júní. Þórður segir að sú spá sé að breytast.
„Það er útlit fyrir það að það verði áfram sama góða blíðan,“ segir Þórður að lokum.