Þessa dagana bjóða 20 útibú KFC á Bretlandseyjum upp á veganborgara, sem ber heitið „Svikarinn“ (e. The Imposter). Uppistaða borgarans er buff sem unnið er úr sveppum og er þetta fyrsta tilraun veitingastaðakeðjunnar þar í landi til þess að reiða fram veganvalkost í stað hins sígilda kjúklingaborgara.
Tilraunum KFC hefur verið tekið fagnandi, ekki síst af umhverfis- og dýraverndunarsamtökum. Þannig sendi PETA frá sér stuðningsyfirlýsingu við borgarann, sem þykir tíðindum sæta enda hafa samtökin lengi verið hatrammur andstæðingur KFC vegna stórtækrar kjúklingaslátrunar keðjunnar.
Cluck yes!!! @KFC_UKI debuts #vegan chicken burger on its menu! After years of PETA and our international affiliates campaigning, meet The Imposter. #ImposterBurger#FingerLickinVeganpic.twitter.com/ObNoo9NZFn
— PETA UK (@PETAUK) June 13, 2019
Enda er eftir miklu að slægjast á veganvagninum. Fjöldi breskra veganista hefur fjórfaldast á síðustu fimm árum og meira en þriðjungur Breta hefur dregið úr kjötneyslu sinni á síðustu árum. Þetta hefur meðal annars skilað sér á hlutabréfamörkuðum, en fyrirtæki sem framleiða veganvörur hafa mörg hver uppskorið ríkulega að undanförnu.
Kristín Helgadóttir hjá KFC á Íslandi segir fyrirtækið því „fylgjast vel“ með þessari tilraun í Bretlandi. Sem fyrr segir mun yfirstandandi prufutímabil í Bretlandi standa yfir í fjórar vikur og segir Kristín að tekin verði ákvörðun í kjölfarið, eftir því hvernig tekst til úti. „Við hjá KFC erum alltaf opin fyrir nýjungum svo við bíðum spennt á kantinum,“ segir Kristín.