Viðskipti innlent

Fjárfestar í Óskabeini með 3,5% í Sýn

Hörður Ægisson skrifar
Vodafone er í eigu Sýnar.
Vodafone er í eigu Sýnar. Fréttablaðið/Stefán
Fjárfestar sem eiga eignarhaldsfélagið Óskabein, sem er meðal annars í hópi stærstu hluthafa tryggingafélagsins VÍS, hafa eignast um 3,5 prósenta hlut í Sýn, samkvæmt heimildum Markaðarins. Miðað við núverandi gengi bréfa félagsins er hluturinn metinn á liðlega 370 milljónir króna sem skilar þeim í hóp tíu stærstu hluthafa Sýnar.

Þeir sem ráða för í fjárfestingafélaginu Óskabeini eru viðskiptafélagarnir Andri Gunnarsson og Fannar Ólafsson, sem eru meðal annars í hópi eigenda að Keahótelum, Gestur Breiðfjörð Gestsson, stjórnarmaður í VÍS og eigandi Sparnaðar, og Engilbert Hafsteinsson, fjárfestir og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá WOW air.

Eignarhlutur fjárfestanna, sem komu inn í hluthafahóp fjarskiptafyrirtækisins undir lok síðasta mánaðar, er í gegnum framvirka samninga hjá Arion banka, samkvæmt heimildum Markaðarins. Í flöggun til Kauphallarinnar þann 27. maí síðastliðinn kom fram að bankinn væri skráður fyrir samtals 5,25 prósenta hlut.

Fyrir utan fjárfestingafélagið Ursus, sem er í eigu Heiðars Guðjónssonar fjárfestis og nýráðins forstjóra Sýnar, eru fjárfestarnir í Óskabeini næstumsvifamestu einkafjárfestarnir í hluthafahópi Sýnar. Eignarhlutur Ursus í Sýn, sem var að hluta til færður fyrir skemmstu yfir í framvirka samninga hjá Kviku banka, er um átta prósent. Stærstu hluthafar félagsins eru hins vegar breski vogunarsjóðurinn Landsdowne, Gildi lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður verslunarmanna.

Hlutabréfaverð Sýnar stendur í 35,8 krónum á hlut og hefur lækkað um rúmlega 46 prósent á síðustu tólf mánuðum. 

Vísir er í eigu Sýnar hf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×