Fótbolti

Einkunnir eftir sigurinn á Albönum: Gylfi bestur

Gylfi átti afbragðs leik.
Gylfi átti afbragðs leik. vísir/getty
Ísland vann 1-0 sigur á Albaníu í þriðja leik sínum í undankeppni EM 2020 í fótbolta.

Jóhann Berg Guðmundsson tryggði Íslendingum sinn annan sigur í H-riðli með frábæru marki á 22. mínútu. Fátt annað markvert gerðist í leiknum sem var afar rólegur.

Ísland er í 3. sæti H-riðils með sex stig. Íslendingar mæta Tyrkjum á Laugardalsvelli á þriðjudaginn.

Gylfi Þór Sigurðsson var besti leikmaður íslenska liðsins í leiknum í dag að mati Vísis.

Einkunnagjöf Vísis má sjá hér fyrir neðan.

Byrjunarliðið:

Hannes Þór Halldórsson, markvörður 6

Hafði lítið að gera en það sem hann þurfti að gera gerði hann vel. Varði vel frá Hysaj í upphafi leiks.

Hjörtur Hermannsson, hægri bakvörður 6

Tók lítinn þátt í sókninni enda fór íslenska liðið nánast ekkert upp hægra megin. Sinnti varnarhlutverkinu vel í sínum fyrsta leik í byrjunarliði í keppnisleik. Bjargaði sérstaklega vel í upphafi síðari hálfleiks á ögurstundu.

Kári Árnason, miðvörður 7

Traustur og öflugur í loftinu. Íslenska vörnin var sterk í leiknum og gaf fá færi á sér. Kári fékk tvö fín færi í leiknum þar sem hann hefði getað gert betur.

Ragnar Sigurðsson, miðvörður 7

Bjargaði nokkrum sinnum vel, sérstaklega í fyrri hálfleik. Samvinna hans og Kára var til mikillar fyrirmyndar.

Ari Freyr Skúlason, vinstri bakvörður 6

Öruggur með boltann og leysti sitt vel.

Jóhann Berg Guðmundsson, hægri kantmaður 7

Tryggði Íslandi sigurinn með sannkölluðu draumamarki, sínu áttunda fyrir landsliðið. Fór af velli snemma í seinni hálfleik.

Aron Einar Gunnarsson, miðjumaður 6

Varnarvinnan til fyrirmyndar og auðveldaði íslensku vörninni lífið. Fínn leikur hjá fyrirliðanum.

Birkir Bjarnason, miðjumaður 6

Duglegur að vanda. Minna áberandi í seinni hálfleik en þeim fyrri.

Rúnar Már Sigurjónsson, vinstri kantmaður 5

Byrjaði leikinn af fínum krafti en sást lítið í seinni hálfleik. Duglegur og sinnti varnarvinnunni vel. Fékk gult spjald fyrir leikaraskap í fyrri hálfleik.

Gylfi Þór Sigurðsson, framherji 8

Nokkrir frábærir sprettir en spyrnur í föstum leikatriðum hafa oftast verið betri. Áberandi besti fótboltamaðurinn á vellinum og allt sem gerðist í íslensku sókninni fór í gegnum Gylfa.

Viðar Örn Kjartansson, framherji 5

Fékk úr litlu að moða. Hefði mátt halda boltanum betur.

Varamenn:

Arnór Ingvi Traustason - (Kom inn á fyrir Jóhann Berg á 56. mínútu) 6

Gerði sitt. Hélt boltanum ágætlega og var duglegur á hægri kantinum.

Kolbeinn Sigþórsson - (Kom inn á fyrir Viðar Örn á 63. mínútu) 5

Komst lítið í takt við leikinn en nýtti líkamsstyrk sinn vel á köflum. Nálægt því að skora í uppbótartíma.

Arnór Sigurðsson - (Kom inn á fyrir Rúnar Má á 81. mínútu)

Spilaði of lítið til að fá einkunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×