Hinn 27 ára Vanopslagh tekur við formannsembætti af Anders Samuelsen, sem gegndi embætti utanríkisráðherra í fráfarandi ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen og missti þingsæti sitt í nýafstöðnum kosningum.
Flokkurinn greindi frá valinu á nýjum formanni í fréttatilkynningu í morgun. Þar er haft eftir Vanopslagh að flokkurinn eigi mikið verk fyrir höndum en hann galt afhroð í kosningunum og fékk einungis fjóra menn kjörna.
Vanopslagh er fyrrverandi formaður ungliðadeildar flokksins og á sæti í borgarstjórn Kaupmannahafnar.
Rauðu flokkarnir tryggðu sér meirihluta í dönsku þingkosningunum sem fram fóru á miðvikudaginn. Hefur Mette Frederiksen, formaður Jafnaðarmannaflokksins, sagst stefna að því að mynda eins flokks minnihlutastjórn sem myndi njóta stuðnings annarra flokka á vinstri væng stjórnmálanna. Stjórnarmyndunarviðræður Frederiksen hófust síðastliðinn föstudag.