Innlent

Sigri hrósandi Miðflokksmenn fagna

Jakob Bjarnar skrifar
Þingmenn Miðflokksins hafa staðið í ströngu að undanförnu og uppskera nú lof stuðningsmanna og fögnuð.
Þingmenn Miðflokksins hafa staðið í ströngu að undanförnu og uppskera nú lof stuðningsmanna og fögnuð. Vísir/Vilhelm
„Aldrei hefur verið eins einbeittur hópur á þingi,“ segir í yfirlýsingu sem sjá má á Facebook-síðu Miðflokksins. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, deilir færslunni sem jafnvel má líkja við heróp. Fögnuður Miðflokksmanna leynir sér ekki eftir að Orkupakkamálinu var slegið á frest.

Sá sem heldur um penna fyrir hönd Miðflokksins á Facebook var sigri hrósandi eftir að þingfundi var frestað í morgun. En, þá hafði fundurinn staðið í rúman sólarhring.

- Aldrei áður hefur þingfundur staðið jafn lengi.

-Aldrei áður hefur verið fundað eins lengi fram á morgun.

-Aldrei áður hefur farið fram eins löng samanlögð umræða.

-Aldrei áður hefur slíkum aðferðum verið beitt til að reyna að stöðva umræðu.

Og þá er bætt við: „En það hefur heldur aldrei verið svona einbeittur hópur á þingi. Það er bjart yfir þeim.“

Fögnuður hefur brotist út á síðu Sigmundar þar sem Miðflokksmönnum er hrósað í hástert fyrir þrautseigjuna: „Snillingar“, „Frábærlega gert!“, „Þið eruð meiriháttar. Takk,“ og svo framvegis: „Takk fyrir að setja Ísland fyrst“ og Sigurbjörg Elimarsdóttir talar fyrir hönd margs stuðningsmanns Miðflokksins þegar hún segir:

„Þið eigið sannarlega heiður skilið fyrir að reyna að koma í veg fyrir þjóðarlandráð, ótrúlegt úthald sem þið hafið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×