Körfubolti

Toronto einum sigri frá úrslitunum eftir þriðja sigurinn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kawhi Leonard Kawhi Leonard fer framhjá Giannis Antetokounmpo í leiknum í nótt.
Kawhi Leonard Kawhi Leonard fer framhjá Giannis Antetokounmpo í leiknum í nótt. AP/Frank Gunn
Toronto Raptors liðið hefur algjörlega snúið við einvígi sínum á móti Milwaukee Bucks eftir 105-99 sigur í fimmta leik liðanna í nótt í úrslitum Austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta.

Milwaukee Bucks komst í 2-0 en síðan hefur Toronto liðið unnið þrjá leiki í röð og vantar nú aðeins einn í viðbót til þess að komast í úrslitaeinvígið á móti Golden State Warriors. Næsti leikur er líka á heimavelli Toronto Raptors á laugardaginn.

Toronto fékk Kawhi Leonard til að hjálpa sér yfir þröskuldinn en Raptors liðið hefur oft verið líklegt til afreka í úrslitakeppninni síðustu árin án þess að komast alla leið í lokaúrslitin.

Kawhi Leonard sýndi af hverju með stórleik í nótt en hann var með 35 stig, 9 stoðsendingar og hitti úr 5 af 8 þriggja stiga skotum. Þá tók hann einnig 7 fráköst og stal 2 boltum.





„Ég er ekki hræddur á þessu sviði. Þetta er ástæðan fyrir öllum æfingunum yfir sumartímann. Ég er bara að reyna að vinna. Þetta snýst um að ég sé áræðinn og ófeiminn við allt,“ sagði Kawhi Leonard.

Raptors liðið lenti fjórtán stigum undir í leiknum en vann sig inn í leikinn. Kawhi Leonard fór síðan á kostum í lokaleikhlutanum og skoraði þá 15 af stigum sínum en Toronto vann fjórða leikhlutann 33-24.





Kawhi Leonard var besti maður vallarins en hetja Toronto liðsins var hins vegar Fred VanVleet. Fred VanVleet er nýbakaður faðir og hann hélt upp á það með því að skila 21 stigi af bekknum. VanVleet hitti úr 7 af 9 þriggja stiga skotum og Toronto vann þær mínútur sem hann spilaði með heilum 28 stigum.

Kyle Lowry skoraði 17 stig fyrir Toronto en hann varð í nótt stigahæsti leikmaður Toronto Raptors í úrslitakeppninni frá upphafi. var með 14 stig og 13 fráköst.





Giannis Antetokounmpo var með 24 stig fyrir Milwaukee Bucks, Eric Bledsoe skoraði 20 stig og Malcolm Brogdon var með 18 stig og 11 fráköst í endurkomu sinni í byrjunarliðið. Þetta er í fyrsta sinn á tímabilinu þar sem Bucks liðið tapar þremur leikjum í röð.

„Við ætlum ekki að gefast upp. Ekki láta svona. Besta liðið í deildarkeppninni. Við ætlum að mæta í næsta leik og gefa allt okkar. Við erum að koma aftur til Milwaukee,“ sagði Giannis Antetokounmpo.

Til þess að tryggja sér oddaleik á heimavelli þá þarf Bucks liðið að vinna í Kanada. „Þetta snýst um að vera fyrstir í fjóra sigra. Við förum til Toronto og ég held að liðið mitt verði tilbúið fyrir þann leik,“ sagði Mike Budenholzer, þjálfari Milwaukee Bucks.











NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×