Innlent

Forseti sleit þingfundi „með sorg í hjarta“ snemma í morgun

Kjartan Kjartansson skrifar
Bryndís Haraldsdóttir, einn varaforseta Alþingis, frestaði umræðunni um þriðja orkupakkann rétt fyrir klukkan sex í morgun.
Bryndís Haraldsdóttir, einn varaforseta Alþingis, frestaði umræðunni um þriðja orkupakkann rétt fyrir klukkan sex í morgun. Vísir/Vilhelm
Þingmenn Miðflokksins héldu málþófi sínu um þriðja orkupakkann áfram til að verða klukkan sex í morgun. Sem fyrr tóku nær aðeins þeir til máls frá því að umræðan hófst skömmu fyrir klukkan fjögur síðdegis í gær. Forseti Alþingis sagðist fresta umræðunni „með sorg í hjarta“.

Umræða um þriðja orkupakkann hófst klukkan 15:50 í gær. Fyrir utan fjörutíu mínútuna hlé sem gert var frá 19:05 til 19:45 hélt hún áfram til klukkan 5:50 í morgun. Sem fyrr skiptust þingmenn Miðflokksins á að koma í pontu og svara ræðum hvors annars.

Eftir ræðu Bergþórs Ólasonar þegar klukkuna vantaði um stundarfjórðung í sex í morgun sagðist sagðist Bryndís Haraldsdóttir, varaforseti þingsins, ætla sér að fresta umræðunni ef aðrir þingmenn Miðflokksins ætluðu sér ekki að svara Bergþóri.

„Ef svo er ekki þá verður forseti nú með sorg í hjarta að fresta umræðu um annað dagskrármálið af dagskrá þessa þingfundar,“ sagði Bryndís.

Miðflokkurinn hefur nú einn haldið uppi málþófi um þriðja orkupakkanna í rúmar níutíu klukkustundir. Umræðan í heild hefur staðið yfir í vel yfir hundrað klukkustundir. Þingfundi sem hófst klukkan 15:30 á föstudag var þannig ekki slitið fyrr en að verða hálf ellefu á laugardagsmorgun.


Tengdar fréttir

Ekki spennt fyrir því að þvinga fram stöðvun á málþófinu

Formenn þingflokka bæði Vinstri græna og Sjálfstæðisflokksins telja ekki ástæðu til að breyta dagskrá þingsins vegna málþófs Miðflokksins um þriðja orkupakkann. Þingmaður Miðflokksins segir áhugavert að sjá hvort reynt verði að stöðva umræðuna með atkvæðagreiðslu en slíku ákvæði í þingsköpum hefur ekki verið beitt í meira en hálfa öld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×