Innlent

Þingfundur hefur staðið yfir í tæpan sólarhring

Kjartan Kjartansson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson messar yfir félögum sínum í umræðum um þriðja orkupakkann í gær. Miðflokksmenn hafa skipst á að halda ræður og svara hver öðrum undanfarna daga.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson messar yfir félögum sínum í umræðum um þriðja orkupakkann í gær. Miðflokksmenn hafa skipst á að halda ræður og svara hver öðrum undanfarna daga. Vísir/Vilhelm
Umræður um þriðja orkupakkann standa enn yfir á Alþingi en þær hafa farið fram með örfáum hléum frá klukkan ellefu í gærdag. Sem fyrr hafa þingmenn Miðflokksins haldið uppi málþófi í alla nótt og langt fram á morgun.

Þingfundur hófst klukkan hálf ellefu í gærmorgun um byrjaði umræðan um þriðja orkupakkann skömmu eftir klukkan ellefu. Hlé var gert á fundinum klukkan 12:55 en umræðan hélt áfram klukkan 13:30. Síðan þá hefur umræðan haldið áfram nær linnulaust. Klukkutíma hlé var gert á milli klukkan 19 og 20 og svo aftur í hálftíma á milli klukkan 21:15 og 21:45.

Þingmenn Miðflokksins hafa haldið áfram að halda ræður og svara hver öðrum í alla nótt. Þingfundur stóð enn yfir þegar þessi frétt fór í loftið skömmu eftir klukkan tíu í morgun. Fordæmalaust er sagt að einn þingflokkur haldi upp málþófi af þessu tagi.

Málþófið hefur nú staðið yfir í vel yfir hundrað klukkustundir, þar af í rúma tuttugu á fundinum sem nú stendur yfir. Fundað hefur verið langt fram á nætur og jafnvel morgna undanfarna daga. Þingfundi sem hófst klukkan 15:30 á föstudag var þannig ekki frestað fyrr en klukkan hálf ellefu á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×