Enski boltinn

Arsenal eða Man Utd gætu fengið sæti Manchester City í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. Getty/Craig Mercer
Manchester City fagnaði vel um helgina en aðeins degi eftir sigur liðsins í ensku úrvalsdeildinni bárust fréttir af því að Meistaradeildarsæti liðsins væri í hættu.

Manchester City er búið að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð með sigri í ensku úrvalsdeildinni en bandaríska blaðið New York Times sagði frá því að UEFA sé að íhuga að banna Manchester City að taka þátt í Meistaradeildinni 2019-2020.

Ástæðan er sögðu vera að Manchester City gaf ekki knattspyrnuyfirvöldum upp réttar upplýsingar hvað varðar eyðslu félagsins og meðal refsinga sem eru nú í umræðunni er að henda liðinu út úr Meistaradeildinni.

UEFA þarf að taka endanlega ákvörðun fyrir júní eða áður en forkeppni Meistaradeildarinnar 2019-20 fer af stað.



Nú er stóra spurningin hvort eitthvað annað enskt lið fái að taka sæti Manchester City í Meistaradeildinni fari svo að lærisveinum Pep Guardiola verði hent úr keppni.

Liverpool, Tottenham og Chelsea eru öll búin að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni með því að vera í sætum tvö til fjögur í ensku úrvalsdeildinni.

Arsenal á líka möguleika á að bætast í hópinn takist liðinu að vinna Chelsea í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

Tapi Arsenal þessum úrslitaleik í Bakú þá er samt ekki öll von úti enn. Lærisveinar Unai Emery gætu mögulega fengið sæti City af því að Arsenal-liðið endaði í fimmta sæti.

Mirror fjallar um málið og veltir því líka upp að sætið gæti mögulega farið alla leið til Manchester United sem endaði í sjötta sætinu. Það gæti mögulega verið niðurstaðan ef City verði hent út og Arsenal kemst inn með því að vinna Meistaradeildina.





Svo gæti samt farið að UEFA líta svo á að ensku úrvalsdeildinni verði líka refsað fyrir brot Manchester City og að England missi því eitt af sætum sínum í Meistaradeildinni. Það fari þá til Spánar, Þýskalands, Ítalíu eða Frakklands.

Manchester United átti möguleika á að komast í Meistaradeildina en sú von varð að engu eftir að lærisveinum Ole Gunnar Solskjær mistókst að vinna leik í síðustu fimm umferðunum.

Það væri því ótrúleg lukka fyrir United-menn ef við fengjum að sjá Meistaradeildarfótbolta á Old Trafford næsta vetur þrátt fyrir þennan slaka endasprett.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×