Innlent

Dansandi skólastjóri í Þorlákshöfn

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Eitt af því skemmtilegasta sem nemendur Grunnskólans í Þorlákshöfn gera er að mæta í danstíma í skólanum en dans hefur verið kenndur þar í tuttugu ár. Foreldrar fá svo að sjá afrakstur vetrarins á danssýningu í íþróttahúsinu. Ólína Þorleifsdóttir, skólastjórinn er engin undantekning frá danskennslunni.

Dans er hluti af verk og listgreinum í skólanum og allir nemendur í fyrsta til sjöunda bekk fara í dans einu sinni í viku og dans er valgrein í unglingadeild skólans.

„Það bara bætir og kætir að dansa, maður verður glaður í hjartanu að dansa og hreyfa sig en dans er líka mikilvæg list og verkgrein, hún æfir samvinnu, danssporin, fínhreyfingar og grófhreyfingar og er gott undirstöðuatriði fyrir ýmislegt í lífinu,“ segir Ólína.

Krökkunum finnst frábært í danstímunum en þar læra þau fjölbreytt úrval af dönsum.

 

 

Nemendur skólans eru mjög áhugasamir í danstímum og þykir gaman að fá að sýna dans.Magnús Hlynur
Nemendur sjöunda bekkjar sem eru komnir lengst í dansinum læra meðal annars jive, gömlu dansana og suður-ameríska dansa.

Þegar líður að skólalokum á vorin er foreldrum og aðstandendum barnanna boðið á danssýningu í íþróttahúsinu þar sem börnin láta ljós sitt skína á gólfinu en það gerðist einmitt í síðustu viku.

Í lok danssýningarinnar dönsuðu allir krakkarnir saman með Ólínu skólastjóra fremsta á gólfinu.

 

Línudans er í miklu uppáhaldi hjá nemendum skólans.Magnús Hlynur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×