Erlent

Réttarhöldunum í Marokkó frestað

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Louisa Vesterager Jespersen, 24 ára, og Maren Ueland, 28 ára, fundust myrtar í Marokkó þann 17. desember síðastliðinn.
Louisa Vesterager Jespersen, 24 ára, og Maren Ueland, 28 ára, fundust myrtar í Marokkó þann 17. desember síðastliðinn. Myndir/Facebook
Réttarhöld yfir 24 einstaklingum, sem grunaðir eru um aðild að morðunum á tveimur norrænum konum í Marokkó í desember, hófust í dag. Þeim var í kjölfarið frestað um tvær vikur, þangað til 16. maí næstkomandi, að beiðni verjenda svo þeir geti undirbúið málflutning sinn.

Lík kvennanna, þeirra Louisu Vesterager Jespersen og Marenar Ueland, fundust í Atlasfjallgarðinum í desember þar sem þær höfðu verið saman á bakpokaferðalagi. Þær höfðu verið myrtar á hrottafenginn hátt en á meðal sönnunargagna í málinu er myndband sem sagt er sýna morðið á annarri konunni. Fjórtán hafa verið ákærðir í Danmörku fyrir dreifingu á umræddu myndbandi.

Sakborningarnir mættu allir fyrir rétt í marokkósku borginni Salé í dag. Tveir þeirra höfnuðu því að fá úthlutað verjendum og kváðust ætla að ráða sína eigin. Sakborningarnir hafa m.a. verið ákærðir fyrir að stofna hryðjuverkahóp og þá eiga þrír þeirra yfir höfði sér dauðarefsingu fyrir að hafa framið morðin í nafni hryðjuverkasamtakanna ISIS. Abdessamad Ejjoud, 25 ára götusali, er sakaður um að hafa leitt aðgerðir hópsins.

Dómstóll í Marokkó dæmdi svissnesk-breskan mann í tíu ára fangelsi um miðjan mánuðinn í tengslum við morðin á Ueland og Jesepersen. Hann var fundinn sekur um að hafa verið virkur innan hryðjuverkasamtaka en var ekki dæmdur fyrir beina aðild að morðunum.

Áður hafði 25 ára Svisslendingur sömuleiðis verið handtekinn í tengslum við málið. Sá var grunaður um að hafa kennt liðsmönnum hryðjuverkahópsins, sem stóð fyrir árásinni á konunum, á vopn.


Tengdar fréttir

Sviss­lendingur dæmdur eftir morðin í Marokkó

Dómstóll í Marokkó hefur dæmt 33 ára mann í tíu ára fangelsi í tengslum við morðin á hinni norsku Maren Ueland og hinni dönsku Louisu Vesterager Jespersen í Atlasfjöllum í desember síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×