Þetta segir Árni í viðtali í Bítinu í morgun.
Árni var ekki sáttur með þátt tveggja fyrrverandi samgönguráðherra í málinu.
„Það er því miður þannig að það er svolítið mikið af þröskuldum í okkar þjóðfélagi. Hræddar brúður í kerfinu. Við vorum óheppnir með ráðherrana sem voru þá uppi, Sturla Böðvarsson og Kristján Möller.“
Sagði Sturlu halda Vestmannaeyjum í gíslingu
Í grein sem Árni skrifaði árið 2005 og birtist í Morgunblaðinu gagnrýnir hann Sturlu, fyrrverandi samgönguráðherra, fyrir aðgerðarleysi.„Minn gamli félagi og samstarfsmaður til margra ára, Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, hefur gert margt ágætt sem samgönguráðherra, en í öðru eru honum mjög mislagðar hendur. Í rauninni heldur samgönguráðherra Vestmannaeyjum í gíslingu samgöngulega.“

Álitamál hvort göngin væru réttlætanleg af jarðfræðilegum ástæðum
Kristján L. Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, ákvað í samráði við þáverandi ríkisstjórn að leggja áform um gerð jarðganga til Vestmannaeyja á hilluna í ljósi hás kostnaðar og óvissu vegna jarðfræðilegra aðstæðna.Kristján tilkynnti um ákvörðun sína undir lok júlímánaðar 2007. Hann byggði ákvörðun sína á skýrslu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. um mat á kostnaði á göngunum en þar kom fram að verkefnið væri sannarlega gerlegt en það yrði afar kostnaðarsamt. Kostnaðurinn var talinn geta verið á bilinu 52-80 milljarðar.
Skýrsluhöfundar sögðu þá að áhætta við gerð jarðganga til Vestmannaeyja væri mikil og álitamál hvort réttlætanlegt yrði að ráðast í verkefnið miðað við jarðfræðilega virkni svæðisins. Þá töldu þeir nauðsynlegt að gera frekari jarðfræðilegar og jarðtæknilegar rannsóknir til að draga úr óvissu.
Ekki hvort heldur hvenær
Í viðtalinu hjá Bítinu sagði Árni að verkefnið væri vissulega kostnaðarsamt en bætir við að það myndi þó borga sig til lengri tíma litið. Sú lausn í samgöngumálum yrði lang hagstæðust að mati Árna.Aðspurður hvort stjórnvöld sýndu hugmyndinni áhuga kveðst Árni ekki hafa heyrt um neitt slíkt.
„Ég er ekki inn í þessum slag núna, í sjálfu sér, en það væri eina vitið að venda sínu kvæði í kross og fara í þessi göng. Það tæki í kringum sex ár að byggja göngin, 5-6 ár og það er engin spurning að þetta er það sem koma skal.“
Árni segir að ástæðan fyrir því að hugmyndin um Vestmannaeyjagöng hefði ekki komið til framkvæmdar sé sú að „menn hafi ekki viljað rugga bátnum á meðan verið var að byggja nýtt skip“.
Segir Vegagerðina þröngsýna
Þá beinir hann spjótum sínum að Vegagerðinni.„Vegagerðin var á móti þessari framkvæmd og Vegagerðin er nú á mörgu leyti slys á Íslandi því hún er svo þröngsýn þó hún geri margt gott. Þetta er nú bara því miður, sem blasir við sko, að menn ættu bara að venda sínu kvæði í kross og vaða í dæmið.“