Sport

Hinrik Ingi tryggði sér sæti á heimsleikunum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hinrik Ingi Óskarsson og Björgvin Karl Guðmundsson á verðlaunapallinum
Hinrik Ingi Óskarsson og Björgvin Karl Guðmundsson á verðlaunapallinum skjáskot/rcc
Hinrik Ingi Óskarsson tryggði sig inn á heimsleikana í Crossfit með því að lenda í öðru sæti á Reykjavík Crossfit Championship.

Björgvin Karl Guðmundsson fór með sigur af hólmi á Reykjavík Crossfit Championship, fyrsta alþjóðlega Crossfitmótinu sem haldið er hér á landi.

Farmiði á heimsleikana var í boði fyrir sigurvegarann en þar sem Björgvin Karl var nú þegar búinn að tryggja sig þangað þá fer farmiðin til þess sem lenti í öðru sæti, og það var Hinrik Ingi.

Hinrik Ingi varð sjöundi Íslendingurinn sem tryggir sig inn á leikana en nú þegar voru ásamt Björgvini Karli þær Annie Mist Þórisdóttir, Katrín Tanja Davíðsdóttir, Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, Oddrún Eik Gylfadóttir og Þuríður Erla Helgadóttir búnar að tryggja sér sæti á leikunum.



Björgvin Karl vann mótið með 782 stig. Hinrik Ingi kom næstur með 690 stig og þriðji varð Will Moorad með 682 stig. Björgvin Karl vann fyrstu grein mótsins, hlaup upp Esjuna, og var í forystu út mótið.

Þuríður Erla var meðal keppenda í kvennaflokki en hún endaði í fjórða sæti. Jacquelin Dahlström vann mótið, hin unga Haley Adams varð önnur og hin gríska Anna Fragkou varð þriðja.

Fjórar efstu eru allar komnar með farseðil á heimsleikana svo sú sem varð í fimmta sæti fékk farmiðann sem var í boði í Laugardalshöll og það varð Hanna Karlsson.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×