Umferðaröryggisráð og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið efndu í morgun til fundar um umferðaröryggi þar sem farið var yfir slysatölfræði fyrir árið 2018.
Í fyrra skráði Samgöngustofa 197 tilvik þar sem hjólandi eða gangandi vegfarendur slösuðust eða létust. Þorsteinn R. Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, bendir á reiðhjólaumferð hafi aukist mikið og að árið 2017 hafi til að mynda sjö prósent allra vegfarenda í Reykjavík verið á hjóli.
Samhliða þessu hafi slysum fjölgað og við því þurfi að bregðast.
„Yfir fimmtíu prósent alvarlegra og banaslysa í Reykjavík eru á þessum mjúku vegfarendahópum [hjólandi og gangndi]. Þannig við þurfum að einblína mjög sterkt á að vernda þá betur og bæta öryggi þeirra með öllum tiltækum ráðum," segir Þorsteinn.

„Það sem er gríðarlega mikilvægt í okkar huga er aukið hraðaeftirlit og rauðljósaeftirlit. Að bæta það og reyna helst að gera það með rafrænum hætti og nota tæknina í það. Hraðalækkun er gríðarlega mikilvæg, þannig að þegar að það verður slys, að þá sé ökutæki á sem minnstum hraða," segir Þorsteinn.
Hann bendir á að átak í hraðalækknum í hverfum hafi skilað árangri, þar sem hámarkshraði var færður niður í þrjátíu. Nú eigi að ráðast í nýtt átak.
„Við erum stöðugt að horfa á hvort við eigum að færa fleiri götur niður í þrjátíu. En það eru tengibrautir inni í borginni sem við viljum gjarnan fara að færa úr fimmtíu og niður í fjörtíu, sem lið í nýrri umferðaröryggisáætlun."
Eins og hvaða brautir?
„Við erum að tala um Snorrabraut, Lönguhlíð, Langholtsveg, svo ég nefni einhver einstök dæmi."
Hvenær gæti þetta gerst?
„Bara vonandi á þessu eða næsta ári," segir Þorsteinn.