Sport

Anníe Mist: Það er ykkur að þakka að ég fæ að gera þetta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir. Mynd/Instagram/anniethorisdottir
Íslenska CrossFit-drottningin Anníe Mist Þórisdóttir fagnar nú sínu tíunda ári í CrossFit en hún kom öðrum fremur CrossFit á kortið á Íslandi á sínum tíma með frábærum árangri sínum á heimsleikunum.

Anníe Mist fór á sína fyrstu heimsleika í CrossFit árið 2009 eða þegar hún var tvítug. Hún tryggði sér á dögunum sæti á sínu tíundu heimsleikum með glæsilegri frammistöðu í opna hluta undankeppninnar.

Anníe Mist vann heimsleikana fyrst Íslendinga árið 2011 og árið eftir var hún sú fyrsta í sögunni til að vinna tvö ár í röð. Hún hefur alls komist fimm sinnum á verðlaunapall.

Anníe Mist minnist þessara tímamóta í færslu á Instagram síðu sinni um helgina.

"Tíu ár eru liðin en markmiðið er alltaf það sama eða að vera besta útgáfan af sjálfri mér,“ skrifaði Anníe Mist.

„Það sem gerir mig spennta og keyrir mig áfram alla daga er það að ég haldið áfram að bæta mig og verða betri,“ skrifaði Anníe Mist á ensku.

„Þakkir til allra sem hafa staðið á bak við mig, stutt mig og trúað á mig öll þessi ár. Það er ykkur að þakka að ég fæ að gera þetta,“ skrifaði Anníe Mist eins og sjá má hér fyrir neðan.







Eins og er þá deilir Anníe Mist metinu yfir flesta sigra á heimsleikum með þeim Katrínu Tönju Davíðsdóttur og Tiu-Clair Toomey frá Ástralíu sem hefur unnið leikana undanfarin tvö ár.

Katrín Tanja er stödd á Íslandi þessa dagana og hér fyrir neðan má sjá Anníe Mist fagna þeirra endurfundum.

„Sameinaðar á ný og því fylgir svo góð tilfinning. Svo ánægð að þú ert komin heim,“ skrifaði Anníe Mist meðal annars við myndina af þessum tveimur af fremstu CrossFit konum Íslands og heimsins.










Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×