Viðskipti innlent

Einskiptiskostnaður upp á nærri tíu milljarða króna féll á WOW air í fyrra

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
WOW air fór í gjaldþrot í síðasta mánuði.
WOW air fór í gjaldþrot í síðasta mánuði. Fréttablaðið/Anton Brink
Einskiptiskostnaður upp á nærri tíu milljarða króna féll á WOW air á síðasta ári vegna meðal annars uppsagna á leigusamningum um farþegavélar, að því er fram kemur í fjárfestakynningu sem stofnandinn Skúli Mogensen lét útbúa um nýtt lággjaldaflugfélag sem hann vill reisa á grunni hins gjaldþrota félags.

Í kynningunni, sem Markaðurinn hefur undir höndum, er tekið fram að afkoma WOW air á síðasta ári hafi litast af einskiptiskostnaði að fjárhæð 81,5 milljónir dala, sem jafngildir um 9,7 milljörðum króna, sem hafi fallið til vegna snemmbúinna uppsagna á leigusamningum um Airbus-vélar af gerðinni A330 og A320, afpöntunar á A330neo-vélum og starfslokagreiðslna til þeirra starfsmanna félagsins sem var sagt upp störfum í desember í fyrra.

Eins og fram hefur komið nam heildartap WOW air um 22 milljörðum króna í fyrra en þar af var EBITDA félagsins – afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – neikvæð um 10 milljarða króna. Flugfélagið tapaði tæplega 4 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum síðasta árs en allt að 16 milljörðum króna á síðasta ársfjórðungnum.

Slæm afkoma félagsins gerði það að verkum að eigið fé þess var orðið neikvætt um jafnvirði 13,3 milljarða króna í seinni hluta síðasta mánaðar, stuttu áður en það var tekið til gjaldþrotaskipta.

Í kynningunni kemur auk þess fram að heildartekjur WOW air hafi numið ríflega 617 milljónum dala, um 73 milljörðum króna, á síðasta ári en á sama tíma hafi heildarkostnaður félagsins verið 794 milljónir dala eða 94 milljarðar króna. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×