Innlent

Neysla ungmenna á kókaíni að aukast og verða hættulegri

Nadine Guðrún Yaghi og Samúel Karl Ólason skrifa
Neysla ungmenna á kókaíni hefur aukist á undanförnum árum. Þar að auki eru efnin sterkari og fólk er farið að sprauta þeim í sig og reykja þau. Víðir Sigrúnarson, læknir á Vogi, segir þróunina gríðarlegt vandamál.

„Það eru þrettán prósent þeirra ungmenna sem komu í fyrra, voru með kókaínneyslu sem fyrstu greiningu á neyslu, fíknivanda, og þetta er að aukast mjög mikið síðustu árinn,“ sagði Víðir í fréttum Stöðvar 2. Hann sagði neysluna hafa náð toppi í góðærinu 2007 en það hafi dottið niður. Nú sé komin mikil neysla.

„Það sem er alvarlegt við þessa neyslu á kókaíni er að unga fólkið okkar er ekki bara að taka þetta í nefið, heldur er það að sprauta sig með þessu, það er að reykja þetta. Það fær gríðarlega mikinn styrk af efninu inn í taugakerfið og það er mjög hættulegt,“ sagði Víðir. „Við erum að heyra mjög sorglegar fréttir af þessu og þetta er gríðarlegur vandi.“

Hann segir að í fyrra hafi um tvö hundruð krakkar, yngri en tuttugu ára gamlir, komið á vog.

„Við teljum að þrjátíu til fjörutíu prósent af þessum krökkum séu að sprauta sig með fíkniefnum.“ Af þeim sem séu yngri en nítján ára séu þrettán prósent að nota kókaín. „Það er því ansi stór hópur.“

Víðir sagði einnig að á undanförnum hafi ungt fólk fengið aðgang að miklu sterkari efnum en áður.

„Áður fyrr var það þannig að salarnir geymdu lélegri efnin fyrir ungmenni sem höfðu minni fjárráð og gátu ekki borgað eins mikið og fullorðna fólkið fékk góðu efnin. Núna er svo mikið framboð, virðist vera, af kókaíni að það er mjög ungt fólk að fá mjög sterk efni,“ sagði Víðir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×