Innlent

Framhaldsskólakennarar starfa sem leiðbeinendur í grunnskóla

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur lagt fyrir frumvarp um að menntun framhaldsskólakennara verði metin á öllum skólastigum.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur lagt fyrir frumvarp um að menntun framhaldsskólakennara verði metin á öllum skólastigum.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur lagt fram frumvarp þess efnis að menntun framhaldsskólakennara verði metin á öllum skólastigum. Fjöldi kennara hafa misst vinnuna í kjölfar styttingar námsins og sumir ráðnir inn í grunnskóla eingöngu sem leiðbeinendur.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrr í vikunni kom fram að um fimmtíu framhaldsskólakennarar hafa misst vinnuna vegna styttingar framhaldsskólanna úr fjórum árum niður í þrjú og býst Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldskólakennara, við fleiri uppsögnum í vor. Styttingunni lýkur nú í haust og verða þá allir skólar með þriggja ára nám. Guðríður sagði framhaldskólakennara andsnúna breytingunum frá upphafi. 

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra segir framhaldsskólakennara dýrmæta í íslensku samfélagi og verið sé að leita leiða til að missa þá ekki úr menntakerfinu.

„Það er mín von að þeir starfi áfram innan skólakerfisins. Nýtt kennarafrumvarp sem ég hef mælt fyrir á Alþingi mun gagnast þeim framhaldsskólakennurum sem hafa hug á því að kenna á öðrum skólastigum. Eins og lögin eru í dag eru þeir ráðnir inn á önnur skólastig sem leiðbeinendur án viðunandi starfsöryggis og launakjara. Það er von mín að með þessu nýja frumvarpi aukist sveigjanleiki og auki réttindi kennara,“ segir hún.

Aðspurð hvort það sé ásættanlegt að framhaldsskólakennarar fari að kenna í grunnskóla, því sérhæfing þeirra gæti einskorðast við nám í framhaldsskóla, segist Lilja telja að það sé gagnlegt fyrir íslenskt menntakerfi að það sé sveigjanleiki milli skólakerfa og aukin skilningur á mismunandi kerfum.

„Ég tel að það verði jákvæð þróun til lengri tíma litið. Ég tel að það séu bjartir tímar framundan í íslensku skólakerfi,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×