Innlent

Húsbíll fauk út af á Reykjanesbraut

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi skömmu eftir hádegi í dag.
Frá vettvangi skömmu eftir hádegi í dag. Mynd/Guðrún Karlsdóttir
Húsbíll hafnaði utan vegar í miklu hvassviðri á Reykjanesbraut við Keilisvöllinn í Hafnarfirði skömmu eftir hádegi í dag. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu urðu engin slys á fólki.

Sjúkrabíll ásamt dælubíl var sendur á vettvang þegar tilkynning barst um óhappið en engar umferðartafir hafa orðið vegna þess, að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu. Á öðrum tímanum var enn beðið eftir því að bíllinn yrði dreginn upp á veginn en það átti þó að gerast innan skamms.

Afar hvasst er nú á Reykjanesbraut en Strætóleiðir 55, 88 og 89 sem aka á Suðurnesjum hafa til að mynda hætt akstri í dag vegna mikils vinds á veginum. Í tilkynningu frá Strætó segir að akstur haldi áfram um leið og aðstæður batna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×