Skoðun

M/s Berglind

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Ég var í hermanginu. Millilandaskipið Berglind sökk rétt út af Nova Scotia eftir árekstur við danska skipið Charm. Berglind var á leið til Íslands með ósköpin öll af varningi frá Ameríku. Mikið af þessari frakt átti að notast á Keflavíkurflugvelli. Allt frá örlitlum skrúfum upp í stærstu varahluti í þungavinnuvélar. Fleira góss var og um borð. Og fór það allt heldur vaxandi á hafsbotni og stykkjunum fjölgandi eftir því er frá leið sjóslysinu. Kom brátt í ljós að mörgum innflytjandanum varð það hið besta haldreipi í grímulausum lygum sínum og sviksemi, að geta sagt: „Það sökk með Berglindi.“

Þetta ágerðist, ef eitthvað var ekki til, kom svarið: „Það sökk með Berglindi.“ Að endingu var ekki nokkur leið að fá eitt eða neitt, allir sem sögðust eitthvað hafa pantað frá útlöndum, sem auðvitað var lygi, báru því við að það hefði tapast um leið og m/s Berglind. Vitaskuld sáu menn í gegnum þetta – en þó aldrei jafn greinilega og þegar vörur sem áttu að koma sjóveg frá Noregi eða Spáni voru sagðar hafa endað á hafsbotni með Berglindi.

Því er þetta rifjað upp núna að teikn eru á lofti um að siðlausir kónar í margvíslegum rekstri hafi á síðustu dögum eignast sína Berglindi, þeir reka fólk úr vinnu ellegar borga ekki laun, vegna þess að WOW hætti að fljúga. Breytir þá engu hvort viðkomandi reki langferðabíla, saumi sundskýlur, okri á molakaffi eða flytji inn hundasjampó. Viðkvæðið er: „Það er út af WOW.“

Íslands óhamingja er nú öll þessa flugfélags. Það er eins gott að það finnist ekki óvænt loðna á fimmtudaginn og nýjar humarbleyður – og svo byrji eldgos sama kvöldið. Það getur verið svo ári snúið að ljúga sig til baka inn í partýið.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×