Greinargerðin með tillögunni, sem lögð er fram í nafni utanríkisráðherra, telur 20 blaðsíður. Þar er m.a. minnst á hinn stjórnskipunarlega fyrirvara sem gerður er við samþykkt pakkans, þ.e. að engin grunnvirki yfir landamæri eru nú fyrir hendi á Íslandi sem gera mögulegt að flytja raforku á milli Íslands og orkumarkaðar ESB.
Það verði auk þess ekki reist eða áætluð „nema að undangenginni endurskoðun á lagagrundvelli reglugerðarinnar og komi ákvæði hennar sem varða tengingar yfir landamæri ekki til framkvæmda fyrr en að þeirri endurskoðun lokinni,“ eins og það er orðað í greinargerðinni, en ætla má að þar sé vísað til lagningu raforkustrengs sem Alþingi þyrfti þá að samþykkja.
Sæstrengur Sigmundar
Reglulega hefur verið rætt um að strengja sæstreng á milli Íslands og Bretlands á undanförnum árum og áratugum, eins og getið er í greinargerðinni. Þar er vísað til skýrslna sem starfshópur stjórnvalda skilaði árið 2016 þar sem ýmsir þættir þess voru skoðaðir. „Hluti af þeirri vinnu var skýrsla í kjölfar könnunarviðræðna milli íslenskra og breskra stjórnvalda um málið en í þær viðræður var farið í kjölfar fundar þáverandi forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, með þáverandi forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, í nóvember 2015,“ segir í greinargerðinni.
Aðeins er minnst á tvo íslenska stjórnmálamenn í greinargerðinni, fyrrnefndan Sigmund og Davíð Oddsson, sem nú er ritstjóri Morgunblaðsins. Rétt eins og Sigmundur hefur Davíð lýst efasemdum um Þriðja orkupakkann. „Erfitt væri að ímynda sér að þingmenn Sjálfstæðisflokksins muni standa að þessu máli, að minnsta kosti ekki þeir fáu sem hlupust ekki undan merkjum í Icesave,“ skrifaði Davíð meðal annars í Reykjavíkurbréfi síðastliðið haust.
Fyrsti orkupakki Davíðs
Davíð hafði þó óbeina aðkomu að Þriðja orkupakkanum, eins og rakið er í greinargerðinni. Það gerði Davíð þegar hann fór fyrir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar á tíunda áratugnum og fram yfir aldamót. Ríkisstjórn hans samþykkti Fyrsta orkupakkann árið 2003, auk þess sem undirbúningur að Öðrum orkupakkanum hófst á hans vakt.„Samkvæmt innleiðingu fyrsta orkupakkans í raforkulög skyldi vinnsla og sala raforku rekin í markaðskerfi á samkeppnisgrundvelli. Samhliða því voru settar reglur um starfsemi fyrirtækja sem önnuðust flutning og dreifingu raforku í því skyni að stuðla að samkeppni og vernda hagsmuni neytenda. Um leið og lögin tóku gildi tók uppbygging raforkumarkaðar á Íslandi mið af reglum EES-svæðisins og um leið innri markaðs ESB,“ segir til útskýringar í greinargerðinni.
Hana má nálgast í heild sinni hér. Neðst í greinargerðinni má jafnframt nálgast 16 fylgiskjöl með helstu gögnum sem vísað er til. Ekki liggur fyrir hvenær Þriðji orkupakkinn verður tekinn til umræðu í þingsal.