Innlent

Þurftu að yfirbuga farþega Icelandair sem var í annarlegu ástandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Flugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli í síðustu viku.
Flugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli í síðustu viku. Vísir/vilhelm
Áhöfn farþegaþotu Icelandair á leið til Newark-flugvallar í Bandaríkjunum þurfti að yfirbuga farþega sem lét ófriðlega um borð. Þetta staðfestir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við Vísi en fyrst var greint frá málinu á vef DV.

Þotan lagði af stað frá Keflavíkurflugvelli klukkan fimm í dag en áætlað er að hún lendi á Newark-flugvelli klukkan 19 að staðartíma í Bandaríkjunum.

Á vef DV er haft eftir farþega um borð að áhöfninni hefði tekist að yfirbuga manninn og hann væri nú handjárnaður og bundinn í sæti sínu. Fullyrti farþeginn að maðurinn hefði áreitt konur, bæði farþega og flugfreyjur, og tryllst yfir því að ekki væri pizza á boðstólum. Sömuleiðis á hann að hafa hótað að opna neyðarútgang sem hann sat hjá.

Ásdís Ýr staðfestir í samtali við Vísi að farþegi í annarlegu ástandi hefði verið yfirbugaður af áhöfn flugvélarinnar. Segir Ásdís áhöfnina hafa góða stjórn á aðstæðum og hefur verið óskað eftir aðstoð lögreglunnar á Newark-flugvelli þegar þangað verður komið.

Hún gat að öðru leyti ekki tjáð sig frekar um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×