Skoðun

Svívirða 

María Bjarnadóttir skrifar
Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dómi um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar.“ Þessi grein í kosningalögum lætur lítið yfir sér en hefur verið áhrifavaldur í íslenskum stjórnmálum; stýrt örlögum ríkisstjórna og valdið fjöldamótmælum.

Það sem er svívirðilegt í huga eins er yfirsjón í huga annars. Inntak gildismats er ekki alltaf einhlítt, sérstaklega í svona lýðræðissamfélögum sem þróast. Afstaða til vændis er dæmi um þetta. Mörgum finnst það svívirðilegt brot, öðrum ekki. Lögin virðast hallast að hinu síðara.

Refsinæmi vændiskaupa felur til dæmis ekki í sér flekkun mannorðs í skilningi laga um lögmenn. Það er því ekkert í lögum sem kemur í veg fyrir að lögmaður geti keypt vændi af manneskju, hlotið fyrir það dóm (sem yrði auðvitað aldrei birtur á vefnum því það eru svo viðkvæmar upplýsingar) og væri svo kallaður til sem réttargæslumaður eða skipaður verjandi fyrir viðkomandi síðar.

Svipað á við um lögreglufólk. Almennt gerum við kröfu um að lögreglumenn sem gegna lykilhlutverki við að framfylgja refsilögum séu ekki að fremja refsiverða háttsemi, jafnvel þó það sé frívakt. En þegar íslenskur lögreglumaður varð uppvís að því að kaupa vændi nýlega var vægasta úrræði beitt við úrlausn málsins. Samkvæmt fréttum lét hann svo af störfum að eigin ósk, en var ekki sagt upp. Ég þekki auðvitað ekki til atvika málsins, en ég er alveg viss um að það kaupir enginn vændi óvart. Það eru mistök annars eðlis en að rekast í takka og kveikja óvart á kjarnorkuofninum eins og Hómer Simpson lenti í á vinnutíma. Hann var reyndar ekki rekinn heldur.




Skoðun

Sjá meira


×