Líkt og kunnugt er misstu um ellefu hundruð starfsmenn WOW air vinnuna og fjöldi uppsagna hefur fylgt í kjölfarið í afleiddum störfum. Ber þar helst að nefna 315 starfsmenn Airport Associates sem fengu uppsagnarbréf í gær, en mörgum þeirra mun þó bjóðast áframhaldandi starf eftir endurskipulagningu hjá fyrirtækinu.
Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ, ætlar að í heildina geti á bilinu sex til sjö hundruð störf verið í húfi á svæðinu. „Rykið er svona að setjast og það var auðvitað verið að segja upp 315 manns hjá Airport Associates í gær þannig að það er ekki loku fyrir það skotið að það komi fleiri uppsagnir á næstunni en við svo sem vitum það ekki eins og staðan er núna,” segir Jóhann.
Klukkan tvö í dag munu þingmenn svæðisins eiga fund með fulltrúum sveitarfélaganna á Suðurnesjum um þá stöðu sem uppi er. „Andrúmsloftið er náttúrlega þungt en við erum nú ýmsu vön á Suðurnesjum og reynum auðvitað bara að vera bjartsýn. Það hefur ýmislegt verið okkur í hag undanfarin misseri og við leggjum ekkert árar í bát, höldum bara ótrauð áfram,” segir Jóhann.
Mismikil áhrif á sveitarfélögin
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að áhrifin verði eflaust minni þar en í hinum sveitarfélögunum. „Við reiknum með að þetta hafi áhrif á okkar atvinnugrein, ferðamennskuna, og svo vil ég líka nefna það að WOW hefur flutt mikið af fiski frá Grindavík og þessu svæði með frakt til útlanda og þetta mun hafa einhver áhrif á þessa flutninga, að minnsta kosti tímabundið,” segir Fannar.Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ, segir að enn sé unnið að því að ná utan um stöðuna. „Við erum búin að vera að hugsa það og vinna í því að undirbúa hvað við þurfum að gera," segir Magnús.
Í gær fundaði Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra með sveitarstjórnamönnum, verkalýðsfélögum og Vinnumálastofnun á Suðurnesjum. „Efnahagslífið stendur auðvitað sterkt og það er margt mjög jákvætt að gerast. En vissulega, til skamms tíma mun þetta hafa áhrif og það er þannig sem við horfum á það,” segir Ásmundur Einar, spurður hvort hann óttist aukið atvinnuleysi á Íslandi.