Körfubolti

Fyrrverandi þjálfari Chicago Bulls tekur við Þóri og félögum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hoiberg var látinn taka hatt sinn og staf hjá Chicago Bulls í desember.
Hoiberg var látinn taka hatt sinn og staf hjá Chicago Bulls í desember. vísir/getty
Fred Hoiberg, fyrrverandi þjálfari Chicago Bulls í NBA-deildinni í körfubolta, hefur verið ráðinn þjálfari Nebraska háskólans sem Þórir Guðmundur Þorbjarnarson leikur með. Samningur Hoibergs er til sjö ára.

Hoiberg hefur sterka tengingu við Nebraska sem er hans heimaríki. Afi hans, Jerry Bush, var þjálfari körfuboltaliðs Nebraska á árunum 1955-63, hinn afi hans var prófessor við skólann og foreldrar hans útskrifuðust báðir úr Nebraska.

Hoiberg var rekinn frá Chicago Bulls í desember eftir skelfilega byrjun liðsins á tímabilinu. Hann tók við Chicago 2015 og kom liðinu einu sinni í úrslitakeppnina.

Hoiberg þjálfaði Iowa State með góðum árangri á árunum 2010-15. Hann lék með Iowa State á sínum tíma og var svo tíu ár í NBA-deildinni. Þar lék Hoiberg með Indiana Pacers, Chicago Bulls og Minnesota Timberwolves.

Þórir var að klára sitt annað tímabil hjá Nebraska. Liðið vann 19 leiki í vetur og tapaði 17.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×