Upp­gjör: Njarð­vík - Stjarnan 95-89 | Sópurinn á lofti í IceMar-höllinni

Haraldur Örn Haraldsson skrifar
Bikarmeistarar Njarðvíkur eru komnar áfram í undanúrslitin.
Bikarmeistarar Njarðvíkur eru komnar áfram í undanúrslitin. Vísir/Ernir

Njarðvík vann í kvöld sinn þriðja sigur á Stjörnunni í 8-liða úrslitun úrslitakeppnis Bónus-deildar kvenna. Leikurinn endaði 95-89 og Njarðvík er því komið áfram í undanúrslitin.

Fyrsti leikhluti leiksins var í algjörri eign Brittany Dinkins leikmanns Njarðvíkur. Hún gerði 20 stig bara í þeim leikhluta og var einfaldlega að leika sér að Stjörnu liðinu. Þá leit þetta út fyrir að Njarðvík myndi einfaldlega valta yfir þennan leik en leikhlutinn endaði í stöðunni 29-18.

Njarðvík hélt áfram í byrjun annars leikhluta að bæta við í forskotið. Mest komust þær í 18 stiga forskot þegar staðan var 39-21. Þá komst Stjarnan hinsvegar í alvöru stuð og ætluðu ekki að leyfa Njarðvíkingu að ganga frá þeim. Þær lokuðu næstum alveg á Brittany Dinkins og þar af leiðandi varð sóknarleikur Njarðvíkur erfiðari. Sóknarleikur Stjörnunnar hrökk þá líka í gang og þær enduðu hálfleikinn í stöðunni 52-47.

Sama mynstur hélt áfram í þriðja leikhluta þar sem Njarðvík fór vel af stað og náði að auka forystuna upp í 10 stig. Stjarnan var fljótari en áður að snúa taflinu við og voru fljótar að laga stöðuna aftur. Mjög jafnt í þessum leikhluta sem endaði jafn 19-19 og því staðan 71-66 í loka leikhlutans.

Fjórði leikhlutinn fór nokkuð hægt af stað en fljótlega var þetta komið í sama hörku leik og var í þriðja leikhluta. Þegar rétt rúmar tvær mínútur voru eftir náðu Stjörnu konur að minnka muninn í þrjú stig 86-83, því voru loka mínúturnar mjög spennandi. Allt fram að það voru 17 sekúndur eftir en þá setti Lára Ösp gríðarlega mikilvægan þrist fyrir Njarðvík og úrslitin voru ráðin. Lokatölur 95-89 og Njarðvík vinnur einvígið 3-0.

Atvik leiksins

Þristurinn hjá Láru Ösp í lokin var loka smiðshöggið í sigri Njarðvíkur en skemmtilegasta atvikið var þegar Brittany Dinkins setti þrist á lokasekúndubroti fyrsta leikhlutans. Það var svakalegt skot úr ómögulegu færi sem kórónaði hennar leik í fyrsta leikhlutanum.

Stjörnur og skúrkar

Brittany Dinkins var með 35 stig en einnig 8 tapaða bolta þannig hún er í raun stjarna og skúrkur á sama tíma. Paulina Hersler náði í 17 stig og Emelie Hesseldal var með 16 fráköst í leiknum.

Stjörnu megin var Diljá Ögn Lárusdóttir alveg frábær. 25 stig og fimm stolnir boltar, frábær leikur hjá henni í kvöld. Kolbrún María átti hinsvegar ekki sinn besta leik, hún var með sex stig í leiknum og var aðeins með eitt heppnað skot af átta í opnum leik.

Dómararnir

Engir risa dómar sem höfðu lykil áhrif á leikinn, það var einu sinni dæmt á Denia Davis-Stewart sem ég skildi ekkert í hvað dómararnir voru að dæma á. Annars var þetta ágæt frammistaða hjá teyminu.

Stemning og umgjörð

Njarðvíkingar fylltu sína hlið af stúkunni vel og héldu uppi góðri stemningu með trommuslætti og söng. Stjörnu hliðin var töluvert fámennari og þar af leiðandi heyrðist ekki mikið í þeim.

Einar Árni Jóhannsson er þjálfari Njarðvíkur.Vísir/Anton Brink

Einar Árni: Ánægður með að vinna Stjörnuna á sínum besta leik

Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkur var ánægður með sigurinn hjá sínu liði en samþykkir að leiðin þangað var alls ekki auðveld.

„Ég er bara ánægðastur með það að vinna Stjörnu liðið að mínu mati á sínum besta degi í vetur. Þær voru frábærar, skjóta næstum 50% þriggja stiga sem hefur kannski verið þeirra akkílesar hæll í vetur. Þannig að leggja þær, í svona leik, þar sem þær eiga svona frammistöðu. Ég er bara ótrúlega ánægður með það,“ sagði Einar Árni.

Brittany Dinkins átti stórkostlegan fyrsta leikhluta þar sem hún skoraði 20 stig. Það hægðist á henni eftir það en þá komst Stjörnuliðið aftur inn í leikinn.

„Ég er miklu meira upptekinn í hálfleiknum af varnarleiknum. Við vorum að lifa með ákveðnum leikmönnum að skjóta, og bara vel gert hjá þeim. Við vorum að gefa bara of mikið af sniðskotum og við vorum að tapa of mörgum boltum. Við vorum með átta tapaða bolta í fyrri hálfleik og 19 í leiknum sem er bara alltof mikið,“ sagði Einar.

„Britt var geggjuð framan af og átti nokkra frábæra spretti. Það sem stendur upp úr hjá mér, auðvitað erum við með þrjá erlenda leikmenn sem taka mikið til sín og eru leiðtogar og allt það. En, Hulda, Anna, Lára, Krista. Þetta eru níu þristar ef mér skjátlast ekki og það er leikurinn fyrir mér.“

Ólafur Jónas Sigurðsson er þjálfari Stjörnunnar.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Ólafur: Þegar þær tapa svona seríu sker það djúpt

Ólafur Jónas Sigurðsson þjálfari Stjörnunnar var svekktur með tap liðs síns í kvöld en að sama skapi stoltur af liðinu.

„Við börðumst eins og við gátum, gáfum allt í þetta og það munaði ekki miklu í dag. Ég fékk allavega ‘effort’ og ég er svakalega stoltur af því,“ sagði Ólafur.

Stjörnu liðið er mjög ungt og það voru margar í þessum leik sem voru virkilega góðar. Það er því miklar líkur á því að þær verði bara enn betri á næsta tímabili.

„Þetta er bara byrjunin, þú sérð það og þetta er bara mikil reynsla og það er mikill lærdómur í þessari seríu og þessu tímabili. Við erum búin að lenda í allskonar skakkaföllum, margar stelpur sem hafa fengið mikið af mínútum. Ég held að þær hafi lært mikið og ég líka sömuleiðis. Þetta er búið að vera ógeðslega skemmtilegt og ógeðslega krefjandi tímabil.“

Það var erfitt fyrir suma leikmenn Stjörnunnar að tapa leiknum svona naumt og það var tilfinningaþrungin stund eftir leik.

„Maður má ekki taka þetta úr þeim, auðvitað skiptir þetta þær ótrúlega miklu máli. Þessar stelpur eru að mæta klukkan sex að skjóta, þær eru að drilla, þær eru að gera allt sem þær geta til þess að verða betri í körfubolta. Þær lyfta og eru að eyða alveg rosalega miklum tíma í þetta af því þær elska þetta,“ sagði Ólafur.

„Auðvitað þegar þær tapa svona seríu þá sker það djúpt og það er vont, því þær ætluðu sér meira og við ætluðum okkur meira.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira