Skoðun

Skipbrot valdhyggjunnar

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Það er ekki réttindamál íslensku þjóðarinnar að Sjálfstæðisflokkurinn fái að ráðskast að vild með dómaraembættin í landinu. Það er hins vegar réttindamál alls almennings í landinu að geta treyst því að í landinu séu óvilhallir og óháðir dómarar. Þetta er kjarni málsins í Landsréttarmálinu.

Sumir áköfustu talsmenn valdhyggjunnar í íslenskum stjórnmálum hafa reynt að setja dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í það samhengi að um sé að ræða nokkurs konar sjálfstæðisbaráttu gegn erlendri ásælni yfirþjóðlegra stofnana með ískyggilegar skammstafanir, sem hafi óviðurkvæmileg afskipti af innanríkismálum okkar Íslendinga. En mannréttindi eru ekki fyrst og fremst innanríkismál. Og mannréttindi eru umfram allt ekki innanflokksmál.

Hinir sömu aðilar hafa leitast við að draga fram minnihlutaálit dómsins og veita því ígildi hins eiginlega og rétta dóms - því hið eiginlega dómsorð sé svo „óvenjulegt“ og „framsækið“. Ekkert er fjær sanni. Dómur er kveðinn upp sem vonandi verður til þess að Sjálfstæðisflokkurinn lætur af þeim sið að telja sig hafa einhvern sérstakan rétt til þess að fara með mannaráðningar sem innanflokksmál.

Í íslenskum stjórnmálum takast á hægri og vinstri eftir því hvernig við viljum skipta gæðum og byrðum. Þar togast líka á öfl sem stundum eru kennd við stjórnlyndi og frjálslyndi en mætti líka kenna við umhyggju og sérhyggju. En ekki síst takast á í íslenskum stjórnmálum valdhyggja og samráðshyggja. Samkvæmt valdhyggjunni ræður sá sem nær völdum, hvernig sem umboði frá kjósendum kann að vera háttað; ræður öllu, á boltann, hirðir pottinn: The loser takes it all. Og þegar valdhyggjusinninn er í stjórnarandstöðu hamast hann gegn öllum málum, hversu þörf sem þau kunna að vera og krefst þess að kjörnir fulltrúar „skili lyklunum“.

Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu yfir stjórnarháttum Sjálfstæðisflokksins felst skipbrot valdhyggjunnar.




Skoðun

Sjá meira


×