Körfubolti

Besta skotkvöld Durant á ferlinum er meistararnir tóku forystuna í vestrinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kevin Durant fór á kostum.
Kevin Durant fór á kostum. vísir/getty
Golden State Warriors vann sannfærandi sigur á Memphis Grizzlies, 118-103, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt og situr nú eitt á toppnum í vesturdeildinni þegar að styttast fer í úrslitakeppnina.

Kevin Durant og Steph Curry skoruðu báðir 28 stig fyrir meistarana en Durant hitti úr tólf af þrettán skotum sínum utan að velli. Hann hefur aldrei á sínum glæsta ferli hitt jafnvel í einum leik í NBA-deildinni.

Steph Curry bætti tíu fráköstum við stigin sín 28 og DeMarcus Cousins var með 16 stig og níu fráköst. Warriors-liðið er nú með eins sigurs forskot á Denver í baráttunni um efsta sætið og heimavallarréttinn.

LeBron James hvíldi hjá LA Lakers í nótt er Utah valtaði yfir Lakers-menn, 115-100, á heimavelli sínum þar sem að Rudy Gobert skoraði 22 stig og tók ellefu fráköst.

Derrick Favors skoraði 20 stig og Joe Ingles var nálægt sinni fyrstu þrennu á ferlinum en hann skoraði ellefu stig, gaf fjórtán stoðsendingar en tók níu fráköst.

Úrslit næturinnar:

Chicago Bulls - Portland Trail Blazers 98-118

Memphis Grizzlies - Golden State Warriors 103-118

OKC Thunder - Indiana Pacers 107-99

Phoenix Suns - Washington Wizards 121-124

Utah Jazz - LA Lakers 115-100

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×