Erlent

Norður-Kórea byggir aftur upp eldflaugastöð

Kjartan Kjartansson skrifar
Gervihnattamynd af eldflaugastöðinni í Sohae frá því í ágúst.
Gervihnattamynd af eldflaugastöðinni í Sohae frá því í ágúst. Vísir/EPA
Nýjar gervihnattamyndir eru sagðar gefa til kynna að Norður-Kóreumenn séu að endurgera eldflaugastöð sína í Sohae sem þeir höfðu áður lofað að yrði rifin til grunna. Nýju myndirnar voru teknar í kringum leiðtogafund Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Kim Jong-Un leiðtoga Norður Kóreu í Hanoí lauk án samkomulags um afkjarnavopnun.

Eldflaugastöðin sem um ræðir hefur aðeins verið notuð til að skjóta gervitunglum á loft og til að prófa eldflaugahreyfla en ekki til að skjóta á loft langdrægum sprengiflaugum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Trump og Kim náðu ekki saman um hversu langt Norður-Kórea þyrfti að ganga í að gefa kjarnorku- og eldflaugaáætlun sína upp á bátinn áður en Bandaríkin samþykktu að aflétta viðskiptaþvingunum gegn landinu.

Washington Post segir að gervihnattamyndirnar hafi verið teknar einhvern tímann á milli 16. febrúar og 2. mars. Það þýði að vinnan við uppbyggingu eldflaugastöðvarinnar hafi hafist rétt fyrir leiðtogafundinn eða um leið og honum lauk 28. febrúar.

Norðanmenn byrjuðu að rífa eldflaugastöðina skömmu eftir að viðræður þeirra við Bandaríkjastjórn um afkjarnavopnun hófust. Niðurrifið var stöðvað í ágúst í fyrra.

John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Trump, hótaði Norður-Kóreu frekari refsiaðgerðum ef þeir héldu tilraunum sínum áfram í gær.


Tengdar fréttir

Viðræðum Trump og Kim óvænt slitið

Leiðtogafundur Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Kim Jong-un, leiðtoga Norður Kóreu, í Víetnam sem fram fór í morgun varð mun styttri en menn höfðu gert ráð fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×