Innlent

Ríkið sýknað af skaðabótakröfu Ástu Kristínar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ásta Kristín var sýknuð af ákæru ríkissaksóknara í málinu gegn henni. Hún krafðist skaðabóta vegna málsóknarinnar.
Ásta Kristín var sýknuð af ákæru ríkissaksóknara í málinu gegn henni. Hún krafðist skaðabóta vegna málsóknarinnar. Vísir/Vilhelm.

Hæstiréttur hefur sýknað íslenska ríkið af fjögurra milljóna króna skaðabótakröfu hjúkrunafræðings sem var sýknuð af ákæru um gáleysi í starfi sem leiddi til dauða sjúklings.

Árið 2015 var Ásta Kristín Andrésdóttir ákærð fyrir manndráp af gáleysi og fyrir brot á hjúkrunarlögum á þeim grundelli að hún hefði gleymt að tæma loft úr kraga barkaraufarrennu þegar hún tók sjúkling úr öndunarvél 3. október 2012.

Ásta var sýknuð af ákærunni og fór hún fram á miskabætur vegna málsins. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði ríki hins vegar af miskabótakröfu Ástu. Landsréttur staðfesti þann dóm 28. september síðastliðinn. Hæstiréttur samþykkti málskotsbeiðni Ástu og áfrýjaði hún því málinu til Hæstaréttar sem kvað upp dóm sinn í dag.

Ásta Kristín Andrésdóttir í Héraðsdómi Reykjavíkur eftir að sýknudómurinn lá fyrir árið 2015.Fréttablaðið/Stefán

Í umfjöllun um málið á vef Hæstaréttar segir að útgáfa ákæru og höfðun sakamáls gæti ekki leitt til bótaskyldu á grundvelli hlutlægrar bótaábyrgða. Þeir einir ættu rétt á bótum er sætt hefðu nánar tilgreindum rannsóknaraðgerðum svo sem símahlustun, handtöku eða gæsluvarðhaldi.

Ásta sætti hins vegar ekki slíkum aðgerðum var kröfu hennar um bætur á grundvelli hlutlægrar bótaábyrgða því hafnað.

Þá var ekki talið að færðar hefðu verið sönnur á að íslenska ríkið hefði með saknæmum og ólögmætum hætti brotið gegn frelsi, friði, æru eða persónu hennar í skilningi skaðabótalaga. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfu konunnar.

Í viðtali við fréttastofu eftir að dómur Landsréttar féll á síðasta ári sagði Ásta að niðurstaðan væri mikið áfall. Rannsóknin hefði haft gríðarleg áhrif á mannorð hennar og einkalíf fjölskyldu hennar.

„Þetta hefur haft rosaleg áhrif á mig og fjölskyldu mína. Barnið mitt sem er unglingur þurfti að fullorðnast þegar ég sagði henni frá þessu og það hefur áhrif á okkar samskipti og hvernig henni og mér líður,“ sagði Ásta.

Dóm Hæstaréttar má lesa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×