Viðskipti innlent

Yfir 50 prósenta ávöxtun

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Sigurður Viðarsson, forstjóri TM.
Sigurður Viðarsson, forstjóri TM. Fréttablaðið/Stefán
Fjárfesting TM í Arnarlaxi skilaði tryggingafélaginu árlegri ávöxtun upp á ríflega fimmtíu prósent. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu sem félagið gaf út í lok síðustu viku í tilefni af uppgjöri þess fyrir síðasta ár.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í liðinni viku hefur TM selt allan 3,9 prósenta hlut sinn í laxeldis­fyrirtækinu til norska laxeldisrisans SalMar fyrir um 790 milljónir. Um leið keypti SalMar allan 8,4 prósenta hlut Fiskisunds, sem er í eigu Einars Arnar Ólafssonar, stjórnarmanns í TM, Höllu Sigrúnar Hjartardóttur og Kára Þórs Guðjónssonar, í Arnarlaxi fyrir um 1,7 milljarða króna. Hyggst norska laxeldisfyrirtækið í framhaldinu gera kauptilboð í allt félagið.

TM fjárfesti fyrst í Arnarlaxi fyrir ríflega 200 milljónir króna í desember árið 2014 og hefur síðan þá verið einn af stærstu hluthöfum laxeldisfyrirtækisins. Heildarfjárfesting tryggingafélagsins á síðustu fjórum árum nemur um 540 milljónum króna, að því er fram kemur í fjárfestakynningunni, og er árleg ávöxtun um 51 prósent.

Með kaupunum í síðustu viku jók SalMar við hlut sinn í Arnarlaxi í 54,2 prósent úr 42 prósentum. Kaupverðið var samtals 180 milljónir norskra króna, jafnvirði 2,5 milljarða króna, en miðað við það er íslenska laxeldisfyrirtækið metið á um 21 milljarð króna.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×