Viðskipti innlent

„Bið­röðin er löng“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Sigurður Hannesson er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Sigurður Hannesson er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Vísir/Samsett

Ekkert lát virðist vera á tollahótunum frá Bandaríkjaforseta og síðast í gær lét hann það í veðri vaka að beita þau ríki sem leggja ekki lag sitt við tilraunir hans til að leggja undir sig Grænland tollum. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segist þó bjartsýnn á að hagsmunagæsla samtakanna og stjórnvalda nái árangri.

Undanfarin misseri hefur íslenskur þungaiðnaður mætt talsverðum ógnum vegna óreiðu í alþjóðamálum enda hafa Íslendingar einnig þurft að kljást við tollaógnir frá Evrópusambandinu og þann möguleika að landið yrði undir í tollastríði þvert yfir Atlantshafið.

Langtímaáætlanir hálfómögulegar

Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir viðvarandi óvissuástand í heimsmálunum gera það að verkum að fyrirtæki á Íslandi hafi takmarkað svigrúm til langtímaáætlana.

„Í þessu óvissuástandi sem ríkir í heiminum skiptir enn meira máli, það er lykilatriði, að stjórnvöld á Íslandi skapi stöðugleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja,“ segir hann.

Hundur étur hund

Samtök iðnaðarins sé vel vakandi og vinni vel með stjórnvöldum að hagsmunagæslu.

„Varðandi bandarikin er Ísland eins og flestöll ríki heims að vinna að viðskiptasamningum í þessu breytta landslagi og við höfum mikla trú á því að þar leynist tækifæri til að efla tengsl ríkjanna og auka viðskipti með gagnkvæmum ávinningi að leiðarljósi,“ segir Sigurður.

Íslenskur iðnaður sé auðvitað ekki í kjörinni samningastöðu í heimi þar sem hundur étur hund.

„Það eru auðvitað mörg riki sem eru í þessari biðröð, og biðröðin er löng og of snemmt að segja til um árangurinn. En við erum bjartsýn á að þarna leynist tækifæri sem hægt sé að sækja og nýta,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×