Viðskipti innlent

Arnarlax tapaði 405 milljónum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
SalMar sendi í gær tilkynningu til norsku kauphallarinnar með nánari upplýsingum um kaupin í Arnarlaxi. Þar má finna upplýsingar um afkomu Arnarlax í fyrra.
SalMar sendi í gær tilkynningu til norsku kauphallarinnar með nánari upplýsingum um kaupin í Arnarlaxi. Þar má finna upplýsingar um afkomu Arnarlax í fyrra. Fréttablaðið/Pjetur
Laxeldisfyrirtækið Arnarlax tapaði 29 milljónum norskra króna, jafnvirði 405 milljóna íslenskra króna, á síðasta ári. Tap fyrirtækisins minnkaði á milli ára en það nam 134 milljónum norskra króna á árinu 2017, sem jafngildir um 1,9 milljörðum íslenskra króna.

SalMar sendi í gær tilkynningu til norsku kauphallarinnar með nánari upplýsingum um kaupin í Arnarlaxi. Þar má finna upplýsingar um afkomu Arnarlax í fyrra.

Tekjur fyrirtækisins á árinu námu 400 milljónum norskra króna og drógust saman um 36 prósent á milli ára. EBITDA var neikvæð um 33,9 milljónir norskra króna á árinu 2018 en til samanburðar var hún jákvæð um 96 milljónir norskra króna á árinu á undan.

Eins og greint var frá um miðjan febrúar hefur norska laxeldisfyrirtækið SalMar eignast meirihluta í Arnarlaxi og mun í kjölfarið gera kauptilboð í allt félagið. Er félagið metið á um 21 milljarð króna.

SalMar jók hlut sinn í Arnarlaxi í 54,2 prósent úr 42 prósentum og keypti hlutinn á um 180 milljónir norskra króna, jafnvirði 2,5 milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×