Erlent

Kona látin eftir að hafa snætt á Michelin-stað á Spáni

Atli Ísleifsson skrifar
Úr miðborg Valencia.
Úr miðborg Valencia. Getty
Kona er látin og 28 manns urðu fyrir matareitrun eftir að hafa snætt á veitingastað, prýddum Michelin-stjörnu, í spænsku borginni Valencia.

Konan, sem var 46 ára, veiktist á laugardagskvöld eftir að hafa borðað á veitingastaðnum RiFF með eiginmanni sínum og syni. Hún andaðist svo á sunnudagsmorginum. Eiginmaður og sonur konunnar urðu einnig fyrir matareitrun en eru nú á batavegi.

Gropsveppir.Getty
Yfirvöld í Valencia hafa hafið rannsókn á hvað kann að hafa valdið matareitruninni og hafa tekið sýni úr hráefnum í eldhúsi staðarins. Fjölmiðlar segja að gropsveppir (e. morel mushroom) hafi verið um að kenna en það hefur þó ekki fengist staðfest.

Eigandi RiFF segir að veitingastaðnum hafi verið lokað á meðan niðurstöðu rannsóknarinnar er beðið.

Í frétt BBC segir að yfirvöld hafi haft uppi á 75 manns sem snæddu á staðnum milli 13. og 16. febrúar og komist að því að 29 manns hafi fengið matareitrun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×