Innlent

Leikur einn að afnema leikskólagjöldin

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins. Fréttablaðið/Stefán
Það ætti ekki að vera erfitt að gera leikskólana í Reykjavík gjaldfrjálsa öllum í ljósi þess að leikskólagjöld standa ekki undir nema rétt rúmlega 9 prósentum af rekstrarkostnaði þeirra. Þetta segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands í borgarráði.

Á fimmtudag var lagt fram svar skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn Sönnu um hlutfall leikskólagjalda af rekstrarkostnaði leikskóla. Í svarinu segir að þetta hlutfall sé 9,3 prósent og hafi farið lækkandi frá árinu 2014 þegar það var 12,1 prósent af rekstrarkostnaði.

„Sósíalistaflokkurinn leggur áherslu á gjaldfrjálsa menntun á öllum skólastigum og það er von sósíalista að leikskólagjöldin verði afnumin svo að hægt sé að vinna að því að leikskólarnir verði með öllu gjaldfrjálsir. Slíkt ætti ekki að vera miklum erfiðleikum háð þar sem leikskólagjöldin eru ekki hátt hlutfall af rekstrarkostnaði leikskólanna,“ segir í bókun Sönnu á fundi borgarráðs.

„Afnám leikskólagjalda getur breytt miklu fyrir fjölskyldur sem eiga erfitt fjárhagslega og gjaldfrjálsir leikskólar stuðla að borg þar sem þjónusta borgarinnar við börn er gjaldfrjáls. Þá er mikilvægt að þeir sem starfi á leikskólum borgarinnar fái einnig greidd mannsæmandi laun fyrir störf sín.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×