Erlent

Mueller ekki við það að klára

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Robert Mueller, sérstakur saksóknari.
Robert Mueller, sérstakur saksóknari. Nordicphotos/AFP
Robert Mueller, sérstakur saksóknari dómsmálaráðuneytisins, mun ekki skila skýrslu um rannsókn sína í næstu viku. Mueller er því enn að rannsaka meint áhrif rússneskra stjórnvalda á bandarísku forsetakosningarnar og meint samráð við framboð Donalds Trump.

Frá þessu greindi Reuters í gærkvöldi og hafði eftir embættismanni innan dómsmálaráðuneytisins. CNN hafði sagt frá því á miðvikudag að ráðuneytið myndi líklega tilkynna í næstu viku um að Mueller hefði afhent William Barr ráðherra skýrslu sína.

„Það ætti ekki að koma neinum á óvart að það standi ekki til að afhenda skýrslu á meðan forsetinn á í afar viðkvæmum viðræðum í Víetnam,“ hafði Reuters eftir heimildarmanni en Trump fundar með Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, í Asíuríkinu eftir helgi.

Rannsókn Muellers hefur leitt af sér fjölda ákæra, játninga og sakfellinga. Nýlega var Roger Stone, náinn bandamaður forsetans, ákærður fyrir meðal annars það að hafa sagt rannsakendum ósatt. Trump hefur alla tíð neitað því að nokkurt samráð hafi átt sér stað. Þá hefur forsetinn ítrekað talað um rannsóknina sem „nornaveiðar“ á meðan stuðningsmenn hans hafa hvatt hann til að láta stöðva hana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×