Skoðun

Vinnufriður

Eyþór Arnalds skrifar
Stærsti flokkurinn í borginni er í minnihluta ásamt þremur nýjum flokkum í borgarstjórn. Á fyrsta ári höfum við lagt fram tugi tillagna en jafnframt haft jákvæð áhrif til breytinga. Má nefna stöðu heimilislausra, aukna áherslu á sköpun í skólastarfi og einfaldara velferðarkerfi. Það er hlutverk okkar að benda á það sem betur má gera í borginni. Frá kosningum hefur mikill fjöldi úrskurða, dóma og álita fallið borginni í óhag. Hæstiréttur staðfesti að borgin snuðaði öryrkja um bætur.

Héraðsdómur felldi dóm um störf skrifstofustjóra borgarstjórans. Umboðsmaður Alþingis benti á brot borgarinnar í húsnæðismálum Félagsbústaða. Ólögleg var ráðning borgarlögmanns að mati Jafnréttisstofu. Svört skýrsla borgarskjalasafns um skjalamál borgarinnar á síðasta ári. Niðurstaða innri endurskoðunar um óheimila framúrkeyrslu Félagsbústaða leiddi til þess að framkvæmdastjórinn sagði starfi sínu lausu. Skýrsla innri endurskoðunar um braggamálið. Og svo álit Persónuverndar um að borgin hafi brotið persónuverndarlög í aðdraganda kosninganna. Þessi samfelldi áfellisdómur er einstakur í sögu borgarinnar. Hann er ekki frá okkur kominn. Hann er einfaldlega staðreynd.

Undanfarna daga hafa embættismenn beðið um vinnufrið. Um hann er þetta að segja: Við munum áfram styðja við góð mál og styðja starfsmenn í sínum störfum. Okkur ber hins vegar að skoða þau mál þar sem brotin eru lög og reglur. Það er einfaldlega okkar lögbundna hlutverk. Það kann að hafa áhrif á starfsandann að æðsti embættismaður borgarinnar sem jafnframt er borgarfulltrúi kannist ekki við ábyrgð á því sem aflaga fer.

Ítrekað varpar borgarstjórinn ábyrgð sinni yfir á undirmenn með því að segjast ekkert hafa vitað, ekkert hafa sagt, ekkert skrifað og ekkert gert. Það er sannkallað ábyrgðarleysi. Ef störfin eru í lagi verður góður vinnufriður. Við erum kosin sem fulltrúar fólksins í borginni. Við berum ábyrgð á að vel sé farið með fé og farið sé að lögum. Vinur er sá er til vamms segir. Borgin okkar getur gert betur. Stöndum saman um það.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×