Viðskipti innlent

Ingibjörg Guðmundsdóttir ráðin skólastjóri Lýðháskólans á Flateyri

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ingibjörg mun starfa samhliða fráfarandi skólastjóra að undirbúningi næsta skólaárs.
Ingibjörg mun starfa samhliða fráfarandi skólastjóra að undirbúningi næsta skólaárs.
Ingibjörg Guðmundsdóttir, kennslustjóri Háskólans í Reykjavík, hefur verið ráðin skólastjóri Lýðháskólans á Flateyri frá 15. júní næstkomandi. Hún mun taka við starfinu af Helenu Jónsdóttur sem hefur leitt uppbyggingu skólans síðasta árið.

Í tilkynningu segir að Ingibjörg hafi víðtæka reynslu og þekkingu á íslenskum skólamálum en áður en hún hóf störf hjá HR árið 2015 starfaði hún meðal annars sem framkvæmdastjóri kennslu og þjónustu við Háskólann á Bifröst. Þar áður hafði hún verið umsjónarmaður fjarnáms við sama skóla.

„Ingibjörg er menntaður leikskólakennari frá Fósturskóla Íslands árið 1991. Hún lauk BA gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst árið 2005 og MA gráðu í alþjóðaviðskiptum frá sama skóla árið 2010.

Hún er jafnframt bæði með diplóma í kennsluréttindum á framhaldsskólastigi frá Háskólanum á Akureyri frá árinu 2011 og á háskólastigi frá Háskóla Íslands frá árinu 2013 auk þess að vera með IPMA vottun í verkefnastjórnun frá Verkefnastjórnunarfélagi Íslands. Þar fyrir utan hefur hún fjölbreytta reynslu úr íslensku atvinnulífi og stjórnkerfi,“ segir í tilkynningu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×