Í þættinum voru meðal annars sýndar upptökur úr öryggismyndavélum þar sem sjá má Jón Þröst yfirgefa hótelið sem hann dvaldi á ásamt unnustu sinni. Jafnframt má sjá hann á gangi skammt frá hótelinu. Lögreglan hefur birt upptökurnar í von um að þær geti aðstoðað við leitina að Jóni, en lögreglan hafði áður birt skjáskot úr upptökunum.
Lögreglunni hefur borist fjöldi ábendinga frá almenningi í tengslum við hvarfið en margir segjast hafa séð hann á gangi. Lögreglan vinnur hörðum höndum að því að rannsaka ábendingarnar en um helgina sagðist hún vera vongóð um að geta fundið út ferðir Jóns Þrastar
Stór hluti fjölskyldu Jóns Þrastar er stödd í Dublin til þess að aðstoða við og skipuleggja leitina að honum. Jón Þröstur ferðaðist til Dublin til þess að taka þátt í pókermóti.
„Við ætlum ekkert að hætta. Þetta er ekkert maður sem lætur sig hverfa. Það getur ekki verið. Við verðum að finna manninn og við verðum að komast að því hvað kom fyrir,“ sagði Jana Guðjónsdóttir, unnusta Jóns Þrastar í samtali við fréttastofu fyrr í dag.