Erlent

Gat ekki gengið að kröfum Kim

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, töluðu við blaðamenn í Hanoi eftir að fundi þeirra og sendinefndar Norður-Kóreu var slitið.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, töluðu við blaðamenn í Hanoi eftir að fundi þeirra og sendinefndar Norður-Kóreu var slitið. Getty/bloomberg
Forseti og utanríkisráðherra Bandaríkjanna voru sammála um að fundur þeirra með sendinefnd Norður-Kóreu í Hanoi hafi verið góður. Samband ríkjanna sé ennþá gott, þrátt fyrir að fundi þeirra hafi verið slitið fyrr en gert hafði verið ráðið fyrir.  Leiðtogarnir hafi ákveðið í sameiningu að ganga frá samningaborðinu án þess að undirrita nýtt samkomulag.

Bandaríkjaforseti, Donald Trump, sagði á blaðamannafundi sínum eftir að fundi hans og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, var slitið á sjöunda tímanum að síðustu 36 klukkustundir hafi verið árangursríkar. Engu að síður hafi hann og Kim verið sammála um að „það væri ekki gott að undirrita eitthvað“ á þessum tímapunkti.

Hann lýsti norður-kóreska starfsbróður sínum sem áhugaverðum einstaklingi og að samband þeirra væri ennþá sterkt. Hann hafi þannig fulla trú á að Norður-Kórea muni einn daginn verða öflugt efnahagsveldi. Hins vegar „þurfi stundum að ganga burt“, eins og Trump orðaði það.

Forsetinn útskýrði að málefnalegur ágreiningur þeirra Kim hafi einfaldlega verið óyfirstíganlegur á þessari stundu. Norður-Kóreumenn hafi viljað losna undan öllum viðskiptaþvingunum, gegn því að þeir losuðu sig við þorra kjarnavopna sinna - en þó ekki öll.



Trump sagði að bandaríska sendinefndin hafi ekki getað sætt sig við þessi skilyrði og öllum hafi því verið ljóst að engin sameiginleg niðurstaða væri í augsýn. Því hafi viðræðunum verið slitið og að viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna gegn Norður-Kóreu séu enn í gildi.

„Mig dauðlangar að afnema viðskiptaþvinganirnar, ég vil sjá Norður-Kóreu eflast enda á ríkið framtíðina fyrir sér. Það var hins vegar ekki hægt í dag,“ sagði Trump. Hann tjáði blaðamönnum jafnframt að Kim hafi lofað sér að Norður-Kórea myndi ekki hefja aftur prófanir á langdrægum eldflaugum. Leiðtogarnir hafi þó ekki skipulagt aðrar viðræður.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tók undir með forsetanum og sagði fundinn hafa verið góðan þrátt fyrir að ekkert samkomulag hafi náðst. Hann sé auk þess bjartsýnn og að sendinefndir ríkjanna tveggja muni funda aftur á næstu vikum. „Ég vildi óska þess að við hefðum komist lengra en ég er engu að síður vongóður,“ sagði Pompeo.


Tengdar fréttir

Viðræðum Trump og Kim óvænt slitið

Leiðtogafundur Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Kim Jong-un, leiðtoga Norður Kóreu, í Víetnam sem fram fór í morgun varð mun styttri en menn höfðu gert ráð fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×