Körfubolti

Luka Doncic kveður táningsárin í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Doncic.
Luka Doncic. Getty/Stacy Revere
Slóvenski nýliðinn Luka Doncic lék í nótt sinn síðasta leik sem táningur í NBA-deildinni í körfubolta.

Það virðist fátt koma í veg fyrir að Luka Doncic verði valinn nýliði ársins og margir spekingar tala um hann sem eina af stóru framtíðarstjörnum deildarinnar.

Luka Doncic var með 26 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar í 110-101 sigri Dallas Mavericks á Indiana Pacers. Það fór því ekki svo að hann tapaði fjórum síðustu leikjum sínum sem táningur.

Doncic var með þrennu í leiknum á undan (28 stig, 10 fráköst, 10 stoðsendingar) en þurfti þá að sætta sig við tap á móti Los Angeles Clippers.

Luka Doncic heldur upp á tvítugsafmælið sitt í dag en hann fæddist 28. febrúar 1999 í Ljubljana í Slóveníu.





Doncic lék alls 57 leiki sem táningur í NBA-deildinni og á fjórar af fimm þrennum táninga í allri NBA-sögunni. Meðaltöl hans sem táningur voru 20,9 stig, 7,3 fráköst og 5,7 stoðsendingar í leik.

Luka Doncic var valinn nýliði mánaðarins í Vesturdeildinni í nóvember, desember og janúar. Hann sló í gegn með Real Madrid á Spáni og slóvenska landsliðinu á Eurobasket en það hefur líka komið í ljós að leikur hans passar mjög vel inn í NBA-deildina.





Frammistaða Luka Doncic hefur kallað á allskonar vangaveltur og samanburð. Margir nefna Larry Bird í þeim samanburði en báðir eiga þeir það sameiginlegt að lesa leikinn einkar vel og plata menn upp úr skónum með útsjónarsömum leik sínum.

Rick Carlisle, þjálfari Dallas Mavericks, spilaði með Larry Bird hjá Boston Celtics á sínum tíma og hefur viðurkennt að það sé margt líkt með þeim.  Það verður þó erfitt fyrir Luka Doncic að ná á sama stall og Bird sem var meðal annars kosinn besti leikmaður NBA-deildarinnar þrjú tímabil í röð á níunda áratugnum.











NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×