Lífið

Jonas Brothers snúa aftur eftir sex ára hlé: Tónleikaferðalag og plata á leiðinni

Sylvía Hall skrifar
Jonas Brothers snúa aftur.
Jonas Brothers snúa aftur. Vísir/Getty
Hljómsveitin Jonas Brothers snýr aftur í ár eftir sex ára hlé. Bræðurnir Kevin, Joe og Nick eru sagðir hafa flogið til London í vikunni til að skipuleggja endurkomuna en bræðurnir nutu mikilla vinsælda fyrir tæpum áratug síðan og áttu hug og hjörtu unglingsstúlkna um allan heim.

Bræðurnir komu fyrst fram á sjónarsviðið árið 2005 eftir að hafa fengið tækifæri á Disney-sjónvarpsstöðinni og urðu fljótlega hluti af geysivinsælum ungmennahóp stöðvarinnar sem innihélt stjörnur á borð við Selena Gomez, Miley Cyrus og Demi Lovato. Fengu bræðurnir sína eigin þætti, JONAS, sem náðu þó ekki miklu flugi og var framleiðslu hætt eftir tvær þáttaraðir en engu að síður var hljómsveit þeirra gríðarlega vinsæl um alla heim og muna eflaust margir eftir slögurum á borð við S.O.S, Burnin‘ Up og Lovebug.

Bræðurnir tilkynntu endalok sveitarinnar í Good Morning America árið 2013. Nú stefna þeir á endurkomu.Vísir/Getty
Eftir endalok hljómsveitarinnar árið 2013 sneru bræðurnir sér að öðrum verkefnum. Nick Jonas, yngsti bróðirinn, hóf sólóferil sinn og gekk nýlega í það heilaga með leikkonunni Priyanka Chopra við hátíðlega athöfn á Indlandi. Joe stofnaði hljómsveitina DNCE og hefur samband hans við Game of Thrones leikkonuna Sophie Turner verið áberandi. Kevin hefur verið minna í sviðsljósinu en yngri bræður sínir en hann tók þátt í raunveruleikaþáttum á borð við Celebrity Apprentice og stofnaði byggingafyrirtækið JonasWerner. 

Aðdáendur hljómsveitarinnar geta því tekið gleði sína á ný eftir sex ára fjarveru sveitarinnar sem boðar nýja tónlist og tónleikaferðalag á árinu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×